Veitingastaðurinn La Colina brátt opnaður í Borgarnesi

Undanfarnar tvær vikur hafa Borgnesingar heyrt hamarshögg berast frá Hrafnakletti 1b, þar sem veitingastaðurinn Vinakaffi var áður til húsa. „Við byrjuðum að vinna að breytingunum fyrir tveimur vikum og stefnum á að opna veitingastaðinn La Colina í byrjun maí,“ segir Jorge Ricardo sem stendur að rekstrinum ásamt eiginkonu sinni Alicia Guerrero. „Við hefðum gjarnan viljað opna fyrr en húsið þarfnast viðhalds bæði að innan sem utan og því næst það ekki fyrr,“ bætir hann við. Því er unnið hörðum höndum að breytingum og viðhaldi hússins þessa dagana, en allir sem koma að framkvæmdum eru heimamenn.

 

Verður La Colina fyrsta veitingahúsið sem þau Ricardo og Alicia reka á Íslandi en bæði hafa þau reynslu úr veitingageiranum, sem rekstraraðilar og almennir starfsmenn. Eru þau þegar farin að leggja drög að matseðli staðarins. Þar verður meðal annars boðið upp á kaffi og ástarpunga en einnig eldbakaðar pitsur og kjötsúpu, svo dæmi séu tekin. Þar að auki verða kólumbískir smáréttir á boðstólnum. „Við ætlum að vera með empanadas, sem eru litlir hálfmánar, fylltir með kjúklingi eða nautahakki og grænmeti. Þá er bæði hægt að djúpsteikja eða ofnbaka. Empanadas eru bornir fram með ají, sem er chili sósa og eru alveg svakalega góðir,“ segir Ricardo.

 

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir