Bíllinn sökk í forarsvað á Hjallahálsi í Gufudalssveit og sat þar fastur í tæpan sólarhring. Jarðýtu þurfti til að losa bílinn. Ljósm. Jóhanna Ösp Einarsdóttir.

Flutningabíll sat fastur í tæpan sólarhring

Flutningabíll með fullfermi festist í forarsvaði á Hjallahálsi í Gufudalssveit í síðustu viku. Frá þessu er greint á vefnum bb.is. Hjallaháls, sem liggur á milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar, er hluti af þjóðvegi 60 og var samkvæmt merkingum Vegagerðarinnar skráður opinn og greiðfær en af myndum af vettvangi að dæma má álykta að vegurinn hafi verið nánast ófær flutningabílum.

Bíllinn sem um ræðir var á suðurleið, á leið upp hálsinn Djúpafjarðarmegin, með fullan tengivagn af laxi frá eldisstöðvum á sunnanverðum Vestfjörðum þegar hann festist. Á vef bb.is er sagt frá því að eigandi bílsins að óskað hafi verið eftir hjálp en Vegagerðin hafi ekki talið það hlutverk sitt að aðstoða fastan bíl á þjóðvegi sem skráður hafi opinn og greiðfær samkvæmt merkingum hennar. Því fór að lokum svo að eigandinn sjálfur kom fékk jarðýtu á staðinn og losaði bílinn, en þeim aðgerðum lauk ekki fyrr en tæpum sólarhring eftir að bíllinn festist.

Þjóðvegur 60 um Gufudalssveit er erfiður að vetri en einnig í leysingafærð eins og var í síðustu viku þegar flutningabíllinn festist. Þar eru Hjallaháls og Ódrjúgsháls helstu farartálmarnir. Í vetur var til að mynda sagt frá því í Skessuhorni þegar flutningabíll með fullfermi af fiski fór út af við Ódrjúgsháls með þeim afleiðingum að tengivagn hans valt á hliðina. Björgunarsveitarmenn úr Reykhólasveit eyddu þá drjúgum part nætur í að bjarga farminum. Ökumaður flutningabílsins sem festi sit á Hjallahálsi í síðustu viku er því langt því frá að vera sá fyrsti sem kemst í hann krappann á hálsunum í Gufudalssveit og yfirgnæfandi líkur eru á því að hann verði ekki sá síðasti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir