Steypuvinna í fullum gangi þar sem nú er risin viðbyggingin við brugghúsin. Við anddyri hennar hefur verið komið fyrir barstólum úr viði og borðum úr stórgrýti.

Byggt við brugghús til að geta tekið á móti hópum í bjórsmökkun

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við Brugghús Steðja í Borgarfirði, en um 150 fermetrar hafa verið byggðir aftan við sjálft brugghúsið. Þó nóg sé að gera í bjórframleiðslu segir Dagbjartur Arilíusson í Steðja að ekki sé verið að stækka brugghúsið. „Þetta er einfaldlega gert til að við getum betur tekið á móti stórum hópum sem sækjast í auknum mæli eftir því að koma hingað í bjórsmökkun og kynningar,“ segir hann í samtali við Skessuhorn. Hann segir slíkar ferðir verða stöðugt vinsælli, ekki síst meðal Íslendinga. „Það eru helst vinnustaðir sem fjölmenna hingað í skemmtiferðir en einnig er nokkuð um að ferðamenn komi hingað í hópum,“ segir Dagbjartur. Eftirspurnin eftir slíkum ferðum er orðin slík að hann hafi séð sig knúinn til að stækka. „Þó við auglýsum það ekki þá höfum við alltaf tekið á móti hópum sé þess óskað. Nú er töluvert bókað í slíkar ferðir í sumar og stórir hópar væntanlegir,“ segir hann.

 

„Hingað til höfum við tekið á móti hópum í brugghúsinu sjálfu. Það fer mjög vel um 25-30 manns þar í einu en þegar hóparnir eru farnir að telja nær 50 manns þá fer að verða þröngt á þingi, ég tala nú ekki um þegar þeir eru stærri,“ segir Dagbjartur og bætir því við að hann hafi oft þurft að skipta fjölmennum hópum í tvennt. Með tilkomu betri aðstöðu eigi slíkt að heyra sögunni til. „Þegar þetta verður komið í gagnið geri ég ráð fyrir að hér verði leikandi hægt að taka á móti hundrað manna hópum þannig að vel fari um alla,“ segir hann. Rýmið mun einnig nýtast sem lager að einhverju leyti og segir Dagbjartur að framkvæmdum ljúki á næstu vikum.

 

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir