Neyðarkerra komin á Akranes

Síðastliðinn laugardag var Rauða krossinum á Akranesi afhent neyðarkerra sem gjöf frá nokkrum aðilum á Akranesi. Neyðarkerra sem þessi inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum. RKÍ hefur undanfarið unnið að því að koma slíkum kerrum fyrir víða um land, en yfirleitt á ein kerra að þjóna stóru svæði.

Það var Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem tók að sér það verkefni að safna fyrir neyðarkerru eftir að hafa fengið ábendingu um að slík væri ekki til staðar hér á Akranesi. Hafði Vilhjálmur samband við nokkur öflug fyrirtæki á Akranesi – Norðurál, HB Granda, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstað – og óskaði eftir að þessir aðilar myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið. Skemmst er frá því að segja að örskamma stund tók að safna fyrir kerrunni og voru allir tilbúnir til að leggja málefninu lið. Slysavarnadeildin Líf hafði samband þegar hún frétti af söfnuninni og óskaði eftir að fá að leggja fjármuni í verkefnið.

 

Afhending kerrunnar fór fram í björgunarsveitarhúsinu, en Björgunarsveitarfélag Akraness ætlar að annast hýsingu kerrunnar. Sveinn Kristinsson, formaður RKÍ, hélt stutta tölu og lofaði framlag gefenda sem og framgöngu Vilhjálms, sem sagði frá tilkomu kerrunnar og veitti viðtöku þakklætisvotti frá RKA. Svo skoðuðu félagar í RKA og björgunarsveitinni búnað kerrunnar, sem er all nokkur.

„Stjórn Rauða krossins á Akranesi færir fyrirtækjunum, Akraneskaupstað og slysavarnadeildinni Líf hjartans þakkir fyrir að hafa tekið svona vel í að styðja við þetta góða og þarfa verkefni og Vilhjálmi Birgissyni fyrir að hafa gengið vasklega í málið,“ segir í tilkynningu frá RKA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira