„Grátlegt að missa góðan afla vegna rifinnar nótar“

Skipverjar á Víkingi AK komu með um þúsund tonn af loðnu til vinnslu á Akranesi í gærkvöldi. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra var þetta mjög góður afli ekki síst vegna þess að hann samanstóð að 85% af hrognafullri kvenloðnu. Albert sagði að það hefði engu að síður skyggt á ánægjuna í veiðiferðinni að eftir að þessi þúsund tonn voru komin um borð í skipið hafi nótin rifnað og þeir misst af vænum skammti sem kominn var upp að skipshlið. „Maður var alveg ótrúlega svekktur við þetta og nokkra stund að jafna sig. Það stefndi í að við hefðum fyllt skipið, allt upp í 2800 tonn í þessum túr af úrvals hráefni. Ótrúlega svekkjandi þegar veiðarfærin gefa sig svona,“ sagði Albert. Nú er verið að ljúka löndun úr Víkingi á Akranesi og verður þá siglt til Reykjavíkur og ný nót tekin um borð. „Eftir það verður stímið tekið beint á Breiðafjörðinn aftur. Kannski verður það síðasta veiðiferðin okkar á þessari stuttu loðnuvertíð. Kvótinn er að fyllast,“ sagði Albert.

Systurskip Víkings, Venus NS, sigldi með loðnuafla úr Breiðafirði austur til Vopnafjarðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.