Brúa bilið milli skólastiga

Síðastliðinn föstudag var haldinn sameiginlegur íþróttadagur í Akraneshöll. Þar hittust elstu börn í leikskólum og 1. bekkingar í grunnskólum á Akranesi og spreyttu sig á ýmsum æfingum. Á annað hundrað börn tóku þátt í íþróttadeginum í ár og skemmtu sér konunglega. Starfsfólk skólanna hafði útbúið fjölbreyttar stöðvar um alla Akraneshöll og var börnunum skipt í blandaða hópa á hverja stöð, þar sem þau fengu að spreyta sig ýmsum boltaæfingum, stultum, jóga, hlaupum og fleiru. Um er að ræða árlegan viðburð sem er liður í samstarfi skólastiganna, Brúum bilið sem hefur verið fastur liður í skólastarfi á Akranesi frá 1996. Á Akranesi eru starfandi fjórir leikskólar og tveir grunnskólar sem unnið hafa saman að því á þessum árum að auðvelda börnum að flytjast milli skólastiga og skapa samfellu í námi þeirra.

 

Að sögn Ástu Egilsdóttur kennara við Grundaskóla hefur samstarfið reynst mjög vel í alla staði. Hún segir skólabyrjunina reynast börnunum almennt mun auðveldari eftir að samstarfið hófst og að aðlögun að grunnskólanum gangi betur fyrir sig. „Við höfum sinnt faglegu samstarfi skólastiganna í gegnum árin en sá þáttur í samstarfinu þarf að vera reglubundinn, meðal annars vegna mannabreytinga. Nú er til að mynda nýfarinn af stað samráðshópur um læsi sem hefur meðal annars það markmið að leggja fram tillögur um hvernig tryggja megi samfellu í læsi milli skólastiganna,“ segir Ásta.

 

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.