Skallagrímur
Góður leikur J.R. Cadot dugði Skallagrímsmönnum ekki í leiknum á föstudag. Hér treður hann yfir varnarmann Hamars sem má sín lítils í baráttunni. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímur berst enn um heimaleikjarétt

Síðastliðinn föstudag tók Skallagrímur á móti Hamri í 1. deild karla í körfuknattleik. Fyrir leikinn höfðu Skallagrímsmenn þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni en kepptu að heimaleikjarétti í keppninni. Hamarsmenn höfðu hins vegar misst af lestinni. Skallagrímsmenn byrjuðu af krafti en misstu flugið um miðjan fyrsta leikhlutann. Betri stígandi var í leik gestanna sem nýttu tækifærið og náðu afgerandi forskoti og leiddu í leikhléi, 40-56.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Gestirnir leiddu og Skallagrímsmenn minnkuðu muninn lítillega undir lok þriðja leikhluta. Þeir héldu heimamönnum frá sér allt til loka, Skallagrímur komst aldrei nær en sem nam sjö stigum seint í leiknum og þurfti að lokum að sætta sig við tíu stiga tap, 90-100.

J.R. Cadot var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 26 stig, tólf fráköst og sjö stoðsendingar. Næstur kom Hamid Dicko með 15 stig og þá Sigtryggur Arnar Björnsson með 14 stig, níu fráköst og sex stoðsendingar. Davíð Guðmundsson skoraði 13 stig en aðrir höfðu minna.

Í lokaleik deildarinnar mætir Skallagrímur Fjölni á útivelli föstudaginn 18. mars. Þar geta Borgnesingar tryggt sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir