Upplýstur áður en gengið er til kosninga

Hafsteinn Sverrisson

Þegar kemur að alþingiskosningum eru án efa skiptar skoðanir á því hvernig við tökum ákvörðun um hvar við ætlum að láta atkvæðið okkar. Til að taka einhver dæmi þá leyfi ég mér að telja að sum okkar láti e.t.v. atkvæðið á sama stað á kjörseðilinn út frá gömlum vana eða hefð innan fjölskyldunnar. Aðrir hafi hinsvegar kynnt sér kosningaloforðin, eða við fylgjum straumnum og skoðanakönnunum.

Í rannsóknaskýrslu Alþingis 8. bindi, viðauka 1, er farið yfir stjórnsýsluna og siðferði. Þar er bent á að ýmsar spurningar hafi vaknað þegar kom að umfjöllun um starfshætti eftirlitsstofnana um siðferði í opinberri stjórnsýslu. Í þessum kafla segir að grundvallarspurning fræðanna þegar kemur að opinberri stjórnsýslu, sé hvernig hægt er að fá stjórnsýsluna til að gegna hlutverki sínu á skilvirkan, hagkvæman og heiðarlegan hátt.

“Skilvirkni, hagkvæmni og heiðarleiki í stjórnsýslunni varða hagsmuni almennings og í lýðræðisríki er það meginatriði að opinber stjórnsýsla er almannaþjónusta. Það felur í sér að höfuðviðfangsefnið er að skapa borgurunum skilyrði til þess að lifa farsælu lífi. Þau skilyrði varða bæði réttarríkið, sem byggir á að tryggja borgurunum jafnræði og sanngirni, og velferðarríkið sem er ætlað að tryggja öryggi og afkomu borgaranna.”

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis má að hluta til sjá hvernig stjórnsýslan hér á landi hefur starfað. Þessa skýrslu tel ég vera mjög gott lesefni og eftir þann lestur geta kjósendur gert stuttan samanburð á hegðun og störfum núverandi ríkisstjórnarflokka, þ.e.a.s. hvort einhverjar breytingar hafi orðið á háttsemi þeirra sem starfa innan stjórnsýslunnar.

Slíkur samanburður væri, að ég tel líklegur, til að auðvelda landsmönnum að taka upplýsta ákvörðun, áður en gengið er í kjörklefann. Hvort vilji sé fyrir því að halda núverandi starfsháttum innan stjórnsýslunnar óbreyttum, eða hvort að landsmenn séu komnir með nóg af svona háttsemi ráðamanna lýðveldisins Íslands. Ég væri mjög spenntur fyrir því að sjá niðurstöðu alþingiskosninga þar sem búið væri að upplýsa kjósendur um hvernig stjórnkerfið hefur starfað í raun og veru hér á landi, hvernig ráðamenn höguðu sér í aðdraganda hrunsins og hvernig þeir hafa hagað sér eftir hrunið. Er mikil breyting þar á?  Er nóg að skipta um mann í brúnni ef vélin er ennþá biluð?

Við þurfum að leggja smá vinnu á okkur sjálf áður en við göngum til kosninga. Það dugar ekki að renna yfir einhver loforð frá frambjóðendum sem við fáum á blaðsnepli inn um póstlúguna. Ég skora á alla kjósendur að gefa sér tíma og lesa Rannsóknarskýrslu Alþingis, gera stuttan samanburð á hegðun allra þeirra sem í framboði verða í næstu alþingiskosningum. Með þeim upplýsingum og þeim loforðum sem frambjóðendur leggja fram, tel ég okkur geta tekið skynsamlega og upplýsta ákvörðun um hvert við látum atkvæði okkar í næstu alþingiskosningum.

 

Hafsteinn Sverrisson

Höf. er viðskiptalögfræðingur og varaformaður Pírata á Vesturlandi.