Svar við fyrirspurn

Guðrún Sigurjónsdóttir

Sigurður Guðmundsson beindi þeirri spurningu til stjórnar Kaupfélags Borgfirðinga hvaða hagsmuni við teldum okkur vera að verja með andstöðu okkar við framkvæmdir á Borgarbraut 57-59 sem byggðist meðal annars á okkar eigin vinnu.

Þessari spurningu er fljótsvarað.

Í fyrsta lagi kannast ég ekki við að verið sé að byggja á okkar vinnu, okkar hugmyndir um byggingamagn þarna var  mikið minna í sniðum og hófstilltara en nú er fyrirhugað auk þess sem gert var ráð fyrir grænu svæði umhverfis bygginguna.  Að öðru leyti eins og hefur komið fram í skrifum Guðsteins Einarssonar kaupfélagsstjóra gerum við athugasemdir vegna skorts á bílastæðum á Borgarbraut 57 og 59 en fyrirhuguð bílastæði þar eru ekki í samræmi við byggingarmagnið.

Í Hyrnutorgi, sem er gegnt fyrirhuguðum byggingum á Borgarbraut 57 og 59, er margvísleg starfsemi. Fyrir liggur að bílastæði þeim megin við götuna anna ekki fleirum en viðskiptavinum og nemendum þeirra sem þegar hafa þar starfsemi þ.e. N1, Hyrnutorgi og Menntaskóla Borgarfjarðar. Hagsmunir Borgarlands sem eiganda Hyrnutorgs að stórum hluta og leigjanda þess húsnæðis til ýmissa atvinnurekenda liggja í því að hafa næg bílastæði fyrir viðskiptavini þeirra.

Við óttumst það að verði slík starfsemi á Borgarbraut 57 og 59 sem nú er fyrirhuguð munu íbúar þar og eða gestir þurfa að nýta bílastæðin sem eru til nota fyrir starfsemina okkar megin götunnar þar sem ekki er gert ráð fyrir nægum bílastæðum við nýju byggingarnar á Borgarbraut 57 og 59 með neikvæðum afleiðingum fyrir Hyrnutorg.

 

F.h. stjórnar Kaupfélags Borgfirðinga svf.

Guðrún Sigurjónsdóttir, stjórnarformaður.