Nýlendustefnan

Vilhjálmur Egilsson

Byggðaþróun á Íslandi ber sífellt aukin merki nýlendustefnu höfuðborgarsvæðisins gagnvart landsbyggðinni en sífellt hærra hlutfall af landsmönnum býr á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu 18 árin hækkaði hlutfall landsmanna búsettum á höfuðborgarsvæðinu úr 60% í 64% og yfir 80% af fjölgun íbúa varð þar. Innan við 10% af fjölgun landsmanna varð utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Mikil hagræðing hefur orðið í sjávarútvegi og hefðbundnum landbúnaði og störfum fækkað í þessum atvinnugreinum en ný störf hafa ekki skapast í staðinn.  Þjónustugrunnurinn á landsbyggðinni hefur verið að veikjast.  Uppgangur ferðaþjónustu hefur ekki skapað nægilegan fjölda nýrra heilsársstarfa á landsbyggðinni og þrengt er að opinberri þjónustu. Í opinberri umræðu og stjórn landsins má sjá mörg dæmi um hvernig þessi nýlendustefna birtist en hér skulu aðeins nokkur nefnd:

 

Sjávarútvegurinn

Endalausar kröfur eru um skattlagningu á sjávarútveg í því skyni að færa fjármuni frá fyrirtækjum á landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Enginn hljómgrunnur er fyrir því að geta sjávarútvegsins til að greiða sérstakan skatt sé fyrst og fremst nýtt til að stuðla að uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra í þeim byggðum sem hafa orðið undir í hinni hörðu samkeppni sem innleidd var í sjávarútvegi.

 

Landbúnaðurinn

Settar eru á deilur um styrki til landbúnaðar langt umfram tilefni og hlutfallslegt umfang styrkja og annars stuðnings við landbúnaðinn. Allar búvörur og grænmeti vega aðeins 6,6% af útgjöldum heimilanna. Til samanburðar eru útgjöld vegna áfengis og tóbaks 3,1%, bíla- og bensínreikningurinn 14,1%, húsnæðisliðurinn 20,7% og sífellt hærra hlutfall útgjalda er til þjónustuliða. Öll kindakjötsframleiðsla sauðfjárbænda er sambærileg við það magn af mat sem fer í gegnum tvo til þrjá frystitogara en samt er eins og efnahagur landsmanna standi og falli með stuðningi við sauðfjárrækt.

 

Ferðaþjónustan

Ferðaþjónustan byggist upp að miklu leyti á forsendum höfuðborgarsvæðisins. Ferðamenn dreifast aðallega frá höfuðborgarsvæðinu út á land þar sem uppbygging innviða er stórlega vanrækt vegna þess að tekjur af ferðamönnum skila sér ekki til viðkomandi sveitarfélaga eða annarra þeirra sem þurfa að bera kostnað af því verki. Hlutdeild erlendra ferðamanna í útgjöldum einkaneyslu er orðin um 20% og samsvarandi hlutdeild tekna af neyslusköttum skilar sér í ríkissjóð. Samt er endalaus vandræðagangur við að fjármagna innviði ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

 

Orkumálin

Orkuauðlindir Íslendinga eru að langstærstum hluta á landsbyggðinni. Þar er víða áhugi á að nýta þær á sjálfbæran hátt í þágu íbúanna og almennur stuðningur við það í viðkomandi byggðarlögum. En í flestum tilfellum þegar nýting orkuauðlinda og iðnaðaruppbygging kemst á dagskrá fer af stað mikil mótmælaalda og andstaða frá fólki utan svæðis sem vill að orkuauðlindirnar séu helst ekki nýttar yfirleitt. Þá er reynt að búa til fleyg á milli aðila í ferðaþjónustu og þeirra sem styðja uppbyggingu iðnaðar.

 

Heilbrigðismálin

Heilbrigðiskerfið hefur þróast á forsendum nýlenduskipulagsins. Á tiltölulega fáum árum hafa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni verið skornar markvisst niður og starfsemin flutt til Landsspítalans fyrst og fremst. Allt í nafni hagræðingar. Og Landsspítalinn hefur jafnan talið sig geta tekið við stærra hlutverki. Nú þegar Landsspítalinn kvartar undan of miklu álagi dettur engum í hug að létta af honum byrðinni og flytja þjónustuna aftur til síns heima sem þó væri eðlilegt og í leiðinni byggja upp sérhæfðar þjónustueiningar á landsbyggðinni. Bygging nýs Landsspítala er í sjálfu sér hagkvæm aðgerð en hún mun væntanlega líka festa enn frekar í sessi samþjöppun þjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu.

 

Menntamálin

Menntakerfið þróast á svipuðum forsendum, sértaklega háskólakerfið. Háskólar á landsbyggðinni eru í eilífri baráttu og mæta litlum skilningi. Það er helst Háskólinn á Akureyri sem hefur fengið svigrúm til uppbyggingar en landbúnaðarskólarnir sannarlega lent fyrir niðurskurðarhnífnum. Háskóli Íslands hefur hins vegar fengið sérmeðferð og nú síðast með því að ákveðið hefur verið í fjármálaáætlun að efla hann sérstaklega með 3,7 milljarða framlagi til Húss íslenskra fræða. Það er að sjálfsögðu pólitísk ákvörðun.

 

Samgöngumálin

Samgönguframkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja hafa verið vanrækt mörg undanfarin ár. Í fyrra voru vegaframkvæmdir t.d. 37% minni en að meðaltali á árunum 2000 – 2009. Það bitnar á landsbyggðinni þrátt fyrir að Reykvíkingar hafi nánast afsalað sér alvöru samgönguframkvæmdum fyrir bílaumferð en vilja helst þrengja götur borgarinnar og gengu svo langt að reyna í leiðinni að leysa húsnæðisvanda sinn með fuglahúsum á Hofsvallagötunni. Þrengt er að flugvellinum í höfuðborginni sem gerir landsbyggðinni erfiðara fyrir.

 

Húsnæðismálin

Nýlendustefnunni hefur fylgt mikil hækkun á húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu umfram landsbyggðina.  Þannig var t.d. fermetraverð í fjölbýli á árinu 1995 46% hærra í Reykjavík en í Borgarbyggð. Á árinu 2015 var munurinn orðinn 110%.  Þessi þróun hefur haft í för með sér gífulega skattfrjálsa eignamyndun og auðssöfnun fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis meðan íbúar landsbyggðarinnar hafa setið eftir. Raunhækkunin í Borgarbyggð er 12% en í Reykjavík 88% á þessum tíma.

 

Atkvæðavægið

Mikil umræða er nú um nauðsyn þess að jafna vægi atkvæða milli kjördæma og fast sótt að þeirri málamiðlun sem náðist við síðustu kjördæmabreytingu. Því er haldið fram að jafnt vægi atkvæða sé sérstakt mannréttindabrot. Þó er það svo að fjölmargir þeirra sem berjast fyrir jöfnu vægi atkvæða vilja ganga í Evrópusambandið og telja það einn af helstu kostum við inngönguna að við fáum svo mikil áhrif með ríflegum atkvæðisrétti miðað við stærri þjóðir s.s. Þjóðverja. Ákvörðun um atkvæðavægi byggir á mörgum sjónarmiðum og niðurstaðan verður alltaf málamiðlun. En baráttan fyrir jöfnu vægi atkvæða nú er enn einn þátturinn í nýlendustefnunni gagnvart landsbyggðinni.

 

Áhugalausir ráðherrar

Þessi mál eru mér sérstaklega hugleikin núna þegar Háskólinn á Bifröst hefur verið að sækjast eftir því að fá til sín lögreglunám á háskólastigi. Eins og stjórnarflokkarnir hafa talað um byggðamál mætti reikna með því að svona „moli“ gæti hugsanlega mátt hrökkva norður fyrir Hvalfjörð því að þetta er ný starfsemi og ekki neitt af neinum tekið þótt Háskólinn á Bifröst fengi þetta mikilvæga verkefni sem yrð til þess að styrkja verulega starfsemi skólans. En þá er eins og innanríkisráðherra og menntamálaráðherra sem hafa haft með málið að gera grípi mikið áhugaleysi og embættismennirnir látnir ráða ferðinni sem setja málið í „faglegt“ valferli sem er aðallega sniðið fyrir Háskóla Íslands.  Háskólanum á Bifröst var þá vísað frá með bolabrögðum, þrátt fyrir að skólinn hefði algjörlega verið inni í myndinni á öllum fyrri stigum málsins og viðurkennt að skólinn gæti gert þetta mjög vel (eins og hinir háskólarnir líka).  Þess má geta að engin „fagleg“ hugmyndasamkeppni fór fram um hvernig best væri að nýta 3,7 milljarða í fjárfestingarfé í háskólakerfinu þegar ákvörðun var tekin um Hús íslenskra fræða. Þá var hægt að taka pólitíska ákvörðun enda byggingin á réttum stað. HÍ, HR og HA hafa allir verið efldir með pólitískum ákvörðunum.  HA hefur orðið myndarlegur skóli og fest sig í sessi fyrir harðfylgi norðlenskra þingmanna. HR fékk Tækniskólann til að efla kennslu í tæknigreinum og HÍ hefur eðlilega verið efldur með pólitískum sérkjörum allan sinn langa starfstíma. Því var ekki óeðlilegt að Háskólinn á Bifröst fengi einu sinni eitt minni háttar pólitískt framlag til að styrkja skólann til lengri tíma.

 

Ráðlaus aðstoðarráðherra

Aðstoðarmaður innanríkisráðherra sem nú gefur kost á sér á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi er meðal þeirra ráðuneytisstarfsmanna sem komið hafa hvað mest að þessu máli. Hún hefur aldrei getað séð glætu í því að að taka pólitíska ákvörðun um að fara með lögreglunám í Háskólann á Bifröst á sambærilegan hátt og hægt er með að veita 3,7 milljörðum í Hús íslenskra fræða á Melunum í Reykjavík. Í þessu ferli hafa hinir áhugalausu ráðherrar leyft ráðuneytisstarfsmönnum að valta yfir þá þingmenn sem hafa verið að styðja málstað okkar.  Sem gamall þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra verð ég að viðurkenna að ég er hissa á því að hún skuli vera að bjóða sig fram til þjónustu við okkur hér í kjördæminu þegar hún virðist alls ekki vera tilbúin til að taka á sig nein óþægindi fyrir okkar hönd, og hvað þá að vilja taka þátt í að efla háskólastarf í kjördæminu þegar tækifæri gefst.

 

Þingmenn með kjark

Við höfum verið svo heppin að hafa nokkra þingmenn sem hika ekkert við að taka slaginn fyrir okkur. Sjálfstæðismennirnir tveir, Einar Kristinn og Haraldur, hafa verið í þeim hópi auk þingmanna úr öðrum flokkum sem eru líka tilbúnir til að leggja hagsmunamálum kjördæmisins lið af áhuga og heilindum. Vonandi ná þannig þingmenn kjöri í kosningunum í haust, þingmenn sem skilja að þeir þurfa að vera bæði þjónar og leiðtogar og hafa líka kjark og afl til að verjast nýlendustefnunni.

 

Ísland sambandsríki?

En niðurstaða mín vegna þeirrar nýlenduþróunar sem ég skynja í samskiptum höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar er sú að fyrr eða síðar kemur til stofnunar flokks á svipuðum grunni og Skoski þjóðarflokkurinn. Sá flokkur mun þá hafa á stefnuskrá sinni að Ísland verði sambandsríki þar sem sem landsbyggðin getur þá tekið málin í eigin hendur.  Það gerist ekki fyrir þessar kosningar en gæti vel gerst fyrir þær næstu ef núverandi flokkakerfi snýr ekki af braut nýlendustefnunnar.

 

Vilhjálmur Egilsson.

Höf. er rektor Háskólans á Bifröst.