Meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir

Allt sem prest einn prýða má,

praktuglega ber hún.

Þetta varð sóknarbörnum í Grundarfirði fljótt ljóst, þegar þeir fóru að kynnast nýja sóknarprestinum, sr. Elínborgu Sturludóttur, sem vígst hafði til þjónustu þar árið 2003 og tókst á hendur verkefni og margvíslegar áskoranir prests í sjávarþorpi á landsbyggðinni. Ljóst var að þar var á ferðinni afburða manneskja, með djúpt innsæi, góðar gáfur og hæfileika til að gera vel allt það sem fylgir vandasömu starfi sóknarprestsins. Manneskja sem nálgaðist verkefni sín af einstakri fagmennsku, hlýju og virðingu fyrir fólki og mismunandi aðstæðum þess, bæði í gleði og sorg.

Þann 11. apríl nk. hefst kosning til embættis biskups Íslands og hafa yfir 2.200 fulltrúar þjóðkirkjunnar þar kosningarétt. Við sem höfum fengið að starfa með eða kynnast störfum sr. Elínborgar Sturludóttur, í þjónustu hennar við sóknarbörn og íbúa, gleðjumst innilega yfir því að hún bjóði sig nú fram til þessa mikilvæga embættis. Við teljum að hún búi yfir dýrmætri reynslu, sem sóknarprestur í sjávarþorpi, sveit og borg, menntun til að takast á við verkið, en ekki síst þeim afburða mannkostum og færni sem næsti biskup Íslands þarf að búa yfir.

Þjóðkirkjan og sóknirnar vítt og breitt um landið eru mikilvægt net, ofið gegnum tíma og svæði; í borg, bæjum og til sveita. Kjarninn er hin mikilvæga félagslega og menningarlega þjónusta; hvort sem það er sálgæslan á stöðum þar sem fjölþætt heilbrigðisþjónusta er oft ekki til staðar, barna- og unglingastarf þar sem íbúafjöldinn er takmarkaður eða stuðningur við elstu íbúana, sem í æ ríkari mæli búa einir eða upplifa einsemd. Þess vegna er sóknarpresturinn svo mikilvægur og allt starf söfnuðanna sem miðar að þessu marki.

Þessari mikilvægu samfélagsþjónustu hefur Elínborg sinnt með prýði, í sveit, bæ og borg. Hún þekkir ólíkt og krefjandi starfsumhverfi, áskoranir minni sóknanna og starfsfólks þeirra, bæði launaðra og ólaunaðra. Skyldur biskups við þennan hóp eru fjölmargar, bæði á sviði stjórnsýslu og í trúarlegri leiðsögn. Elínborg hefur reynslu og vilja til að sinna þeim skyldum af innsæi, fagmennsku og natni. Hún hefur allt til að bera til að leiða þjóðkirkjuna og styðja hennar fulltrúa, á vegferð breytinga og nauðsynlegrar uppbyggingar, og til að stuðla að friði og samhug, sem svo víða skortir.

Við sem höfum verið svo lánsöm að starfa með eða kynnast störfum sr. Elínborgar Sturludóttur mælum innilega með henni sem verðugu efni í næsta biskup Íslands.

Björg Ágústsdóttir, Grundarfirði