Með hag barna að leiðarljósi

Eðvar Ólafur Traustason

Fræðslunefnd Borgarbyggðar hefur í talsverðan tíma fjallað um þær áskoranir sem felast í fækkun nemenda við Varmalandsdeild eins og hægt er að lesa í fundargerðum nefndarinnar. Ingvar Sigurgeirsson prófessor vann með sveitarfélaginu við að kortleggja stöðuna og fundaði með foreldrum og starfsfólki samhliða vinnu við skólastefnu Borgarbyggðar. Fræðslunefnd hefur verið á einu máli um að kennslu á unglingastigi (8.–10. bekkur) á Varmalandi verði hætt frá og með hausti 2024. Einnig var ljóst að bæði var vilji og skilningur innan nefndarinnar  á því að kennsla á miðstigi (5.–7. bekkur) yrði jafnframt færð af Varmalandi með það að markmiði að skapa jöfn tækifæri til menntunar og félagslegrar þátttöku barna í sveitarfélaginu.

Samhliða þessum breytingum hefur fjármagn verið tryggt til uppbyggingu leikskóla á Varmalandi, auk þess sem ákveðið var að frístund yrði starfrækt á svæðinu frá og með næsta hausti. Skýr stefna hefur verið mörkuð um að styrkja þjónustu við yngstu börnin á Varmalandi og svæðið um leið. Eyða þar með óvissu um frekari breytingar og skapa stöðugleika í skipan skólamála.

Fyrir 20 árum voru um 160 nemendur í Varmalandsskóla en síðustu tvo áratugi hefur nemendum við Varmalandsdeild Grunnskóla Borgarfjarðar fækkað stöðugt, meðal annars vegna fækkunar staðnema við Háskólann á Bifröst sem og að börnum í sveitarfélaginu hefur fækkað. Nú hefur staðkennslu alfarið verið hætt við Háskólann á Bifröst.

Á yfirstandandi skólaári eru nemendur á Varmalandi  54 í tíu bekkjardeildum. Þar af eru um 20 sem hafa íslensku að móðurmáli og 34 með erlent móðurmál, nær eingöngu úkraínsku. Það má því segja að ef ekki hefði komið til hörmulegrar afleiðingar stríðsins í Úkraínu og straums flóttamanna á Bifröst væru nemendur á Varmalandi um 20 talsins. Á miðstigi er því gert ráð fyrir 4 nemendum sem tala íslensku sem móðurmál og 13 með annað móðurmál en íslensku. Á unglingastigi eru það 2 nemendur sem tala íslensku sem móðurmál og 6 sem tala annað móðurmál en íslensku. Samfélagið á Bifröst, Grunnskólinn á Varmalandi og íbúar sveitarfélagsins lyftu grettistaki til að tryggja farsæla móttöku flóttamanna. Við getum verið gríðarlega stolt af því hvernig það verkefni var leyst af hendi, við mjög krefjandi aðstæður.

Íslenska er lykill að samfélaginu 

Fjölskyldur sem komu til landsins sem flóttamenn hafa nú fest rætur og aðrir flóttamenn bætast í hópinn. Langflest bera þau þá von í brjósti að börnin þeirra verði farsælir íbúar í íslensku samfélagi og öðlist menntun. Íslenska er lykillinn að íslensku samfélagi, það að eignast íslenska vini og íslenskt tengslanet er gríðarlega mikilvæg forsenda þess að blómstra í samfélaginu. Þá er mikilvægt að stuðla að jöfnum tækifærum barna og vinna gegn stéttaskiptingu. Það gerum við ekki síst með því að skapa gott umhverfi og aðstæður fyrir börn af erlendum uppruna í skólakerfinu, en einnig í íþrótta og tómstundastarfi.  Ávinningurinn af því verður skýr þegar litið er til framtíðar. Það er skylda sveitarfélagsins að veita börnum þennan aðgang; að læra tungumálið, umgangast íslenska jafnaldra í stærri hópum og veita þeim stoðþjónustu á þeirra forsendum. Þetta er jafnframt stefna stjórnvalda á Íslandi.

Mönnun með fagfólki er stór áskorun

Það er áskorun að halda úti kennslu í fámennum deildum og verður krefjandi verkefni til næstu ára og áratuga. Skóli snýst ekki eingöngu um almenna kennslu heldur einnig stoðþjónustu sem er sífellt að verða stærri hluti af rekstri og umgjörð skólahalds. Lög, reglur og aðalnámskrá grunnskóla gera víðtækar kröfur um að mæta þörfum nemenda í takt við samtímann. Borgarbyggð eins og önnur sveitarfélög stendur frammi fyrir stórri áskorun að standast þær kröfur.

Hagur barnanna  

Það er ekki auðveld ákvörðun að ráðast í breytingar á skólastarfi. Kjörnum fulltrúum er falin sú ábyrgð að horfa á þær staðreyndir sem liggja fyrir og taka ákvörðun með hag allra íbúa sveitarfélagsins í huga, en ekki síst grunn- og leikskólabarna. Marka stefnu fyrir sveitarfélagið til framtíðar. Í tengslum við það verður jafnframt farið í endurskoðun á tómstundaakstri til að tryggja enn frekari þátttöku barna á þessu svæði í íþróttum og tómstundum.

Hér hefur verið reynt að skýra betur þær áskoranir sem staðið er frammi fyrir varðandi ákvörðun í þessu máli. Með þessum breytingum tel ég að verið sé að stíga mikilvægt skref til þess að mæta betur þeim kröfum sem gerðar eru á okkur sem sveitarfélagi í þjónustu við börn.

Því legg ég til að ráðist verði í þessar breytingar frá og með næsta hausti.

Það er von mín og sýn að til lengri tíma muni nást friður og skilningur um þessar breytingar og þær muni stuðla að bættu umhverfi barna á svæðinu. Það er og hlýtur alltaf að vera  meginmarkmið breytinga í okkar samfélagi.

Eðvar Ólafur Traustason, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknar og formaður fræðslunefndar Borgarbyggðar.