Leyfið rödd minni að heyrast

Helga Þórisdóttir

Ég hef boðið mig fram til embættis forseta Íslands. Síðan ég bauð mig fram þann 27. mars síðastliðinn hefur landslagið breyst mikið og mörg þekkt andlit komið fram. Það hefur ekki stöðvað baráttu mína heldur eflt mig í þeirri staðföstu trú að reynsla mín og þekking komi þjóðinni að góðum notum. Það er líka það sem ég heyri þegar ég fer út meðal fólks.

Helgina eftir að ég bauð mig fram fór ég á skíði með fjölskyldunni minni á Akureyri. Þeirri skíðaferð lauk með því að ég flaug í brekkunni og endaði á bráðamóttökunni. Þegar ég lá í brekkunni og beið eftir aðstoð hugsaði ég: „Jæja, er þetta búið? Ég sem er á besta skeiði lífs míns og á svo margt eftir. Nú ligg ég hér eftir að hafa rúllað niður brekkuna korter í kosningabaráttu.“ En með dyggri hjálp fólks í kringum mig hef ég haldið áfram, nokkuð ósködduð. Ég hef því miður ekki haft tök á því að heimsækja allt landið vegna þess að það er erfitt fyrir mig að ferðast enn sem komið er en ég hlakka mikið til að heimsækja landann strax í maí því þá er ég viss um að ég verði orðin góð.

En þetta er svolítið ég í hnotskurn. Ég gefst ekki upp þó að á móti blási heldur stend fast í fæturna og held áfram. Ég veit að ég er ekki þekkt og fræg en hins vegar hef ég allt til brunns að bera sem forseti landsins okkar ætti að hafa. Ég er heiðarleg, traust, opin og glaðlynd. Sem forseti Íslands vil ég fyrst og fremst vera þjónn fólksins. Ég vil tala fyrir verndun íslenskrar tungu, góðri menntun og fyrir bættum hag aldraðra. Ég hef sérþekkingu á réttindum og öryggi einstaklinga á tækniöld, sem aldrei hefur verið mikilvægari en nú. Festa, fagmennska og heiðarleiki eru mín einkunnarorð – sama hvaða stétt, starf og kyn er um að ræða. Ég hef dug og þor til að standa í fæturna fyrir íslenska þjóð ef á þarf að halda.

Nú biðla ég til ykkar, kæru lesendur, að leyfa rödd minni að heyrast. Að gefa mér tækifæri til að sýna landsmönnum hvað í mér býr. Þú getur mælt með mér á island.is og skoðað vefsíðuna mína, www.helgathorisdottir.is. Facebook-síða framboðsins er https://www.facebook.com/HelgaThorisdottir2024  Hver einustu meðmæli skipta máli!

 

Helga Þórisdóttir

Höf. er í framboði til embættis forseta Íslands