Lán

Finnbogi Rögnvaldsson

Flestir þurfa að taka fé að láni einhvern tímann á lífsleiðinni. Oftast er tilefnið að menn ráðast í að koma sér þaki yfir höfuðið. Sumir nýta sér þessa fjáruppsprettu í meira mæli en aðrir en nokkuð er um að menn fari flatt á því – í einhverjum tilfellum aðrir en þeir sem til skuldarinnar stofna. Gengið er að ábyrgðarmönnum og skuldin innheimt hjá öðrum en þeim sem lánið tók. Þykir mönnum það mis illt er þannig gjalda annarra skuldir.

Hitt er líka orðið útbreitt að fólk sé skuldsett án þess að gera sér glögga grein fyrir því hvernig komið er. Það á til dæmis við um lántöku sveitarstjórna, ríkisstjórna og í sumum tilvikum félaga sem fólk tilheyrir. Regluverk í kringum slíkar lántökur á Íslandi er ekki gott.

Laxárbrú

Árið 1910 var vígð brú yfir Laxá í Nesjum. Þetta var í sjálfu sér ekki ólíkt öðrum samgöngubótum þessa tíma, framkvæmdin nýstárleg og væntingar fólks til framtíðarinnar miklar og bjartar vonir að vakna. Enn fóru eingöngu hestar og menn um vegi og brýr en margir sáu fyrir sér að senn kæmu járnbrautir til með að renna á sporum um héruð, færri veðjuðu á bílamergðina sem seinna kom. Um þessa Laxárbrú sagði t.d. Benedikt Jónsson verkfræðingur að hann teldi brúna nógu sterka til að bera járnbraut og einn brúarsmiða spáði brúnni langri framtíð, 500 ár skyldi hún duga ef illa væri um hana hirt, annars 1000 ár! Þessi brú var tekin niður árið 1971, þá leysti hana af hólmi steinbrú sem stóð til 1995 er enn önnur brú var byggð sem enn stendur (sjá: Laxa_i_nesjum-grein_profork.pdf (thorbergur.is)).

Hið opinbera

Því nefni ég þetta dæmi að erfitt getur verið að sjá fyrir þróun samgangna og ýmislegs er að almenningi snýr og kostar peninga. Því ættu þeir sem með almannafé sýsla kannski að láta sér duga að leysa þau verkefni sem við blasa með því fé sem til reiðu er og menn eru sammála um að setja í sameiginlega sjóði fremur en að leggjast í miklar lántökur og „uppbyggingu til framtíðar“. Staðreyndin er nefnilega sú að það eru þeir sem nú eru uppi sem veita kjörnum fulltrúum umboð en ekki þeir sem ófæddir eru og koma til með að greiða skuldirnar sem stofnað er til í dag. Eins er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að í veröld örra tækniframfara, tískusveiflna og ófyrirséðra atburða af ýmsum toga í heimsmálum stórum og smáum er varasamt að kosta miklu til sinna draumfara. Sérlega ef greitt er af öðrum og öðrum ætlað.

Ef hér væri stjórnarskrá sem eitthvað dygði væru í henni takmarkanir á heimildum framkvæmdavaldsins til að skuldsetja sveitarsjóði og ríkissjóð.

 

Finnbogi Rögnvaldsson