Kolefnisjafnað kjaftæði

Kristján Gauti Karlsson

Ég á nokkra vini sem eru duglegir að hreyfa sig. Ég er að spá í að byrja að borga þeim fyrir að fara í gymmið fyrir mig líka. Kalla það hreyfingarjöfnun. Ég sit á sófanum á meðan þeir svitna fyrir mig. Heildarlíkamsrækt eykst og ég þarf ekki lengur að hafa samviskubit yfir því að nenna ekki í ræktina.

Kolefnisjöfnun virkar alveg eins. Þú borgar einhverjum öðrum til að draga úr þinni mengun, planta trjám sem eiga síðan að draga í sinn þann koltvísýring sem losnar úr læðingi þegar þú flýgur til Kanarí eða ferð sunnudagsrúnt á bensínbílnum og börnin missa ís í sætið. Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Zizek kallaði sambærilegt dæmi um Starbuckskaffi „hámark neysluhyggjunnar“,  svona á milli þess sem saug upp í nefið (ég hef reyndar þá kenningu um nefrennsli Zizeks að hann sé alls ekki með nefrennsli. Það er nefrennslið sem er með hann). Að kaupa sér friðþægingu með syndinni. Það er hörð neysla.

Jæja, þá er ég búinn að slá um mig með því að vísa í marxískan heimspeking og við getum haldið áfram. Ef við víkjum aftur að kolefnisjöfnun og ferðalögum þá er staðreynd málsins þessi; það er engin leið til að hætta að menga með eigin ferðalögum nema sleppa því að ferðast. Ert þú tilbúin(n) að gera það? Hélt ekki. Og ég dæmi þig ekki fyrir það. Ég veit að ég er það ekki. Ég heimsótti nýlega New York í fyrsta sinn. Það var geggjað. Instagram-síðan mín mun aldrei bera þess bætur. Þess vegna er úti um okkur öll.

Ég þori líka að veðja að flestallir krakkarnir sem hrifust svo mjög af Gretu Thunberg hætta að fara í verkfall fyrir loftslagið um leið og þeir þurfa að fórna góðu tjilli með vinum sínum til að mótmæla. Það er auðvelt að henda sér niður á torg með skilti í staðinn fyrir að mæta í stærðfræðitíma, en málið verður aðeins snúnara þegar maður er í miðju Fortnite-sessjóni með strákunum. En við getum ekki dæmt, því við erum ekkert skárri, þvert á móti. Það vill enginn fórna neinu sem veitir honum ánægju eða auðveldar lífið, eðlilega.

En mælistika mannsins eru gjörðir hans. Við segjumst ætla að bæta ráð okkar en gerum það ekki. Það er alveg ótrúlega erfitt að breyta áhættuhegðun fólks, og við hljótum að flokka mengun mannskepnunnar sem áhættuhegðun. Til að fólk láti af áhættuhegðun þarf þrennt að fara saman; það þurfa að vera miklar líkur á afleiðingum, afleiðingarnar þurfa að vera umtalsverðar og enn fremur þurfa þær að vera umsvifalausar.

Reykingar eru gott dæmi um þetta. Við vitum öll að það er óhollt að reykja, s.s. töluverðar líkur á umtalsverðum afleiðingum. En þær koma ekki í ljós fyrr en seinna. Þess vegna kveikir Margrét Þórhildur sér bara í næstu rettu með stubbnum af síðustu. Gersamlega drull.

Hraðakstur er annað dæmi. Að keyra of hratt getur haft umtalsverðar og umsvifalausar afleiðingar. En líkurnar á að það verðir þú sem lendir í slysinu eða að það verðir þú sem löggan sektar fyrir að keyra á 110 en ekki 90 eru bara ekki nógu miklar til að þú hægir á þér á ferðalaginu, sem þú hafðir nota bene ekki hugsað þér að kolefnisjafna.

Það sama gildir um mengun. Við vitum öll að mengun er slæm fyrir umhverfið, lífríki jarðar og þar með á endanum okkur sjálf. En við vitum bara ekki hvenær við þurfum að súpa seyðið af þessu. Hvað í fokkanum eigum við þá að gera? Nú, kolefnisjafna, auðvitað.

 

Greinin birtist sem leiðari í 24. tbl. Skessuhorns 12. júní.

Fleiri aðsendar greinar