Hundruð milljóna í skólahúsnæði án framtíðarsýnar

Guðveig Eyglóardóttir

Í fjárhagsáætlun Borgarbyggðar sem lögð var fram fyrir árið 2017 var lögð fram framkvæmdaáætlun fyrir 2017-2020. Sú áætlun gerir ráð fyrir að ríflega milljarður verði lagður í framkvæmdir og fjárfestingar á tímabilinu. Má þar nefna endurbætur og viðbyggingu við Grunnskólann í Borgarnesi sem löngu tímabært er að ráðast í. Nýjan 40 barna leikskóla á Kleppjárnsreykjum, viðbyggingu við leikskólann Klettaborg, útikennslustofu á Hvanneyri og endurbætur á Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. En áætlunin gerir ráð fyrir að ráðist verði í framkvæmdir og fjárfestingar í skólahúsnæði og íþróttamannvirki á tímabilinu fyrir ríflega 800 milljónir.

Í samanburði er einungis gert ráð fyrir að á tímabilinu verði lagðar um 130 milljónir í brýn verkefni eins og götur, vegir, gangstéttar og stíga. Og um 50 milljónum er ráðstafað í aðra liði. Þar heyra undir slökkvilið, áhaldahús, ferðaþjónusta fatlaðra, ljósleiðaraverkefni o.fl.

Meirihluta sveitarstjórnar virðist í fjögurra ára framkvæmda- og fjárfestingaáætlun sem lögð er fram skorta vilja eða getu til að leggja fram framtíðarsýn á nýtingu fasteigna í eigu sveitarfélagsins til framtíðar. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að um 50 milljónir fari í viðhaldsframkvæmdir. Þessi fjárveiting eins og gefur að skilja dugar þó aðeins til að ráðast í brýnasta viðhald á fasteignum í eigu sveitarfélagsins. Fyrir liggur að þörf er á endurbótum og miklu viðhaldi á flestum eignum sveitarfélagsins t.a.m. mörgum félagsheimilum, félagslegum íbúðum, stofnunum sem og viðhaldi á flest öllu skólahúsnæði. Þetta á við um leikskólana Hraunborg á Bifröst og Klettaborg í Borgarnesi. Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi, Kleppjárnsreykjum og Hvanneyri. Sveitarfélagið á mikið safn eigna í Brákarey sem eru að stórum hluta í slæmu ástandi og kostnaður við endurbætur myndi hlaupa á hundruðum milljón króna ef ráðist yrði í það.

Í upphafi kjörtímabilsins var lögð mikil vinna í að rýna í rekstur og eignasafn sveitarfélagsins með það að markmiði að hagræða, bæta nýtingu á húsnæði og selja eignir. Afrakstur af þessari nauðsynlegu endurskipulaginu og sölu eigna skilaði fljótt miklum viðsnúningi í rekstri og jákvæðum niðurstöðum. Því miður virðist núverandi meirihluta með aðgerðaleysi gagnvart samþykktum verkefnum og skorti á eftirfylgni með fjárhagsáætlun ekki vera að takast að viðhalda þessum árangri sem ætlað var að treysta undirstöður sveitarfélagsins til framtíðar.

Í allri uppbyggingu og endurbótum á húsnæði, gatnagerð og annars í eigu sveitarfélaginu er mikilvægt að líta til íbúaþróunar og forgangsraða verkefnum. Um mikla fjármuni er ræða og fjárfestingu til framtíðar. Ábyrgð kjörinna fulltrúa er mikil og því lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum sem byggja á ráðgefandi þekkingu um skipulagsmál og lýðfræðilega þróun. Annað er ábyrgðarleysi.

 

Höf. er oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.