Háskólinn á Bifröst: Leiðin áfram 2017
Vilhjálmur Egilsson
Háskólinn á Bifröst siglir inn í nýtt ár í þokkalegri stöðu þegar á heildina er litið. Skólastarfið gengur mjög vel. Úttekt Gæðaráðs íslenskra háskóla á skólanum lauk í febrúar á síðasta ári og nýtur skólinn trausts þess. Ýmsar endurbætur voru gerðar á innra starfi og skipulagi skólans í úttektarferlinu og stendur hann nú sem sterkari og betri skóli en áður. Glíman við fjármálin var nokkuð ströng á síðasta ári eins og í flestum menntastofnunum landsins. Mikið mál var að ná utan um áætlanagerð vegna nýhafins árs og það tókst, fyrst og fremst með innleiðingu á nýju launakerfi akademískra starfsmanna og öðrum aðgerðum til að lækka launakostnað. Í vinnu Alþingis við fjárlagafrumvarpið undir forystu Haraldar Benediktssonar, fyrsta þingmanns Norðvesturkjördæmisins, fékkst aukið fé til háskólanna og hlutdeild Háskólans á Bifröst í þessari aukningu dugar til að ná nauðsynlegum stöðugleika í rekstrinum.
Annað stórt mál sem unnið hefur verið að er endurskipulagning á fjárhag íbúðafélaga á Bifröst en þau eru í „eigu“ skólans. Skuldirnar sem á þessum félögum hvíla eru langt umfram það sem rekstur þeirra stendur undir en Íbúðalánasjóður er aðalkröfuhafinn. Við hefur blasið allt frá árinu 2007 að rekstur íbúðafélaganna væri ekki að ganga og að endurskipulagning þeirra væri nauðsynleg. Tvennt kom til. Þegar Keilir var settur af stað fækkaði í frumgreinadeild Háskólans á Bifröst og þar með aðsókn að Háskólanum. Við hrunið breyttust síðan forsendur ungs fólks fyrir að flytja að heiman til að koma á Bifröst. Háskólinn á Bifröst lenti því í mikilli vörn og í stað þess að yfirvöld menntamála kæmu skólanum til aðstoðar og styrktu hann sérstaklega til að sækja fram var þrengt að honum og erfið staða gerð enn verri. Það skipti engu máli fyrir yfirvöld menntamála þótt eignir Íbúðalánasjóðs væru að rýrna um 200 – 300 milljónir á ári á þessu tímabili. Nú hefur mun meiri alvara færst í tilraunir Íbúðalánasjóðs og skólans til að endurskipuleggja fjárhag íbúðafélaganna en reynt var að bjóða um helming íbúðaeininga á Bifröst til sölu á síðasta ári án þess að tækist að ljúka málinu. Nú er ný tilraun að fara af stað og verður þá hluti af eignum skólans jafnframt boðinn til sölu ásamt hótelrekstrinum sem skólinn hefur verið að byggja upp síðustu fjögur árin. Vonandi ganga áformin nú eftir en góður stígandi hefur verið í hótelrekstrinum og æskilegt væri að fá öflugt ferðaþjónustufyrirtæki til að taka við honum og tilheyrandi eignum til að halda uppbyggingunni áfram og efla staðinn.
Háskólinn á Bifröst hefur verið í góðri sókn síðustu árin og nemendum hefur fjölgað á nýjan leik og voru þeir tæplega 600 á síðasta hausti. Sú breyting er orðin á að fjarnámið er helsti vaxtarbroddurinn í skólanum en yfir 80% nemenda eru nú í fjarnámi. Þessi þróun setur enn meiri þrýsting á byggðina á Bifröst og rekstur íbúðafélaganna. Þeim mun mikilvægara er að byggja upp störf á Bifröst til hliðar við skólann og eins hefur verið farið út í að leigja nokkrar íbúðir til Útlendingastofnunar fyrir hælisleitendur sem hefur gengið mjög vel.
Fjarnámið í Háskólanum á Bifröst er í fremstu röð og skólanum er mikið í mun að halda stöðu sinni á því sviði. Á síðustu árum hefur einkum verið sótt fram í meistaranámi sem nú er allt komið í fjarnám. Meistaranám í forystu og stjórnun var sett af stað haustið 2014 sem hefur gengið mjög vel. Nú um áramótin fór í gang nýtt meistaranám í viðskiptalögfræði sem lofar góðu. Næsta haust fer af stað nýtt meistaranám í markaðsfræði. Háskólinn á Bifröst var fyrsti íslenski háskólinn til að bjóða fram grunnnám í lögfræði í fjarnámi. Fjarnámið hefur bætt möguleika fólks til að stunda háskólanám. Margir vilja stunda nám með vinnu eða hafa ekki tök á að flytja með fjölskyldu á Bifröst og fjarnámið gefur mikið frelsi og sveigjanleika til að ná árangri.
Háskólinn á Bifröst hefur ekki gefist upp á að bjóða nemendum upp á staðnám með búsetu á Bifröst, þótt tíðarandinn undanfarin ár hafi ekki unnið með skólanum að þessu leyti og að tilraunir skólans til að halda fram kostum búsetu á Bifröst hafi ekki skilað því sem vonast var til. Skólinn vill vera hluti af sjálfbæru og góðu samfélagi í Norðurárdalnum og öflugur kjarni nemenda í staðnámi á Bifröst er því eftirsóknarverður fyrir skólann. Nú á næstunni verður farið rækilega yfir hvernig skólinn getur hlúð að staðnámi á Bifröst með því að að skapa enn betra umhverfi og aðstæður til að laða að nemendur til búsetu á staðnum. Fólki sem býr á Bifröst líður almennt mjög vel og það má ekki vera neitt falið leyndarmál.
Þegar á reynir í skólanum og gera þarf erfiðar aðgerðir til að ná utan um reksturinn á sama tíma og mikil óvissa er um framtíð íbúðafélaganna á Bifröst er eðlilegt að mikið sé spáð og spekúlerað í samfélaginu um skólann bæði á Bifröst og í Borgarbyggð. Því er ekki að leyna að stundum hefur hrikt í og tilvera skólans í núverandi horfi verið í hættu. Skólinn hefur fundið mikla velvild í sinn garð og stuðning frá forystufólki í samfélaginu. Það hefur hjálpað mikið við að komast í gegnum erfiðleikana. Það er því mikil ánægja og léttir sem fylgir því að geta sagt frá því að Háskólinn á Bifröst er að stíga mun fleiri skref áfram en aftur á bak. Háskólinn á Bifröst hefur alltaf þurft að berjast fyrir tilveru sinni en hann verður 100 ára stofnun á næsta ári sem segir að árangur hafi náðst í þeirri baráttu og hún hefur líka mótað Bifrastarandann. Það „skeður ekkert fyrir okkur“ segjum við á Bifröst. Við þurfum að hafa fyrir öllu hvort sem í hlut eiga prófgráður eða rekstur skólans.