Háskólinn á Bifröst

Bjarni Jónsson

Skólasetrið á Bifröst í Borgarfirði á sér merkilega og farsæla sögu í menntunarsögu þjóðarinnar í bráðum heila öld. Samvinnuskólinn á Bifröst naut mikilla vinsælda  á sínum tíma og þangað komu nemendur hvaðanæva af landinu til að mennta sig í félagsmálum, bókhalds- og rekstrarmálum. En ekki síður til að takast á við  tækifærin  og móta íslenskt samfélag á tímum gríðarlegra samfélagsbreytinga.

 

Samheldni og metnaður

Nemendur frá Bifröst nutu og njóta hvarvetna mikillar virðingar í starfi.  Samheldni nemenda í einstökum árgöngum skólans er landskunn og  hittast margir árgangar reglulega og hafa bundist ævarandi vináttu og tryggð frá skólaárunum.

Þessi andi samkenndar og sóknarhugs einkennir skólann ekki síður í dag en var  fyrir nokkrum áratugum síðan. Og þótt Samvinnuskólin á Bifröst hafi nú breyst í  Háskólinn á Bifröst í takt við þróun náms í landinu,  svífur áfram þessi sóknarhugur og metnaður sem skólinn hefur þróað með sér í áratugi  hvar sem farið er um þessa ágætu stofnun. Bifrestingar verða alltaf Bifrestingar. Það fann ég svo sannarlega þegar ég kom við þar á dögunum  sem frambjóðandi, en annars er skólinn og staðurinn mér vel kunnur sem nemandi við skólann síðastliðinn vetur.

 

Háskólinn á Bifröst hefur markað sér sérstöðu

Háskólinn á Bifröst hefur á undanförnum árum markað sér sérstöðu innan háskólasamfélagsins í stjórnunar, nýsköpunar og viðskiptafræðum, með áherslum á sviðum eins og alþjóðaviðskipta, viðskiptalögfræði, menningarstjórnunar og stjórnunar og forystufræða, auk þess að bjóða upp á þverfaglegar námsleiðir. Háskólinn á Bifröst hefur svo sannarlega þurft að berjast fyrir rétti sínum og tilveru. Það hefur hann gert á sókndjarfan hátt. Nýtur skólinn þar velvildar og öflugs stuðnings fyrri  nemenda skólans og samfélagsins í Borgarfirði.

 

Háskólarnir á landsbyggðinni fái að vaxa og dafna

Mikilvægt er að Háskólinn á Bifröst fái tækifæri til að vaxa, dafna og  taka á nýjum og síbreytilegum þörfum og þróun samfélagsins og þeim atvinnugreinum sem hann þjónar hverju sinni. Háskólarnir í landinu keppa að einhverju marki um starfsfólk og nemendur og bjóða upp á mismunandi námsleiðir. Slíkt er af hinu góða. Háskólarnir á landsbyggðinni, Háskólinn á Bifröst Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum þurfa að njóta  sérstöðu sinnar og sjálfstæðis þó þeir efli samstarf sín á milli.  Liður í því er að Rannsókna og fræðastarf  styrkist  áfram á þessum skólasetrum  Hólum, Hvanneyri og Bifröst og háskólasamfélögin á þessum stöðum blómstri.

Stóru háskólarnir, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík ættu að gefa þeim minni og sérhæfðari eins og Háskólanum á Bifröst aukið svigrúm til að fylgja eftir og þróa sínar námsleiðir, fremur en   taka upp á eigin vegum sambærilegar námsleiðir og þær sem takast vel og njóta vinsælda hjá háskólunum á landsbyggðinni. Það ætti alltént ekki að vera sjálfgefið að ríkið greiði HÍ og HR fyrir að bjóða upp á slíkt nám á sama tíma landsbyggðarháskólarnir eru fjársveltir.

 

Að vera nemandi á Bifröst

Ég hef átt þess kost að kynnast náminu á Bifröst betur undanfarið sem nemandi á meistarastigi í forystu og stjórnun. Þar hef ég tekið námskeið eins og samningar og samningatækni, samskipti og miðlun leiðtoga og sjálfbær stjórnun, svo nokkur dæmi séu nefnd. Í náminu er samankomið fólk með ólíkan bakgrunn bæði hvað varðar fyrra nám, störf og reynslu. Námið byggir mikið á skapandi teymisvinnu og   krafti  sem verður til í svo fjölbreyttum hópi. Slík samvinna  skilar árangri sem enginn gæti náð einn og sér. Heildin verður meira en samanlagt framlag einstaklinga. Námið og aðferðafræðin skilar sterkum nemendum sem eru þess albúnir að ná árangri í þeim fjölbreyttu viðfangsefnum sem þeir sinna eða taka sér fyrir hendur og laða fram það besta hjá samstarfsfólki sínu. Einn slíkur vinnustaður gæti verið Alþingi Íslendinga.

 

Bjarni Jónsson

Höf. býður sig fram til að leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi