Forseti verður alltaf að halda nánu sambandi við fólkið í landinu

Guðni Th Jóhannesson

Þegar þessi orð eru rituð eru rúmar sex vikur liðnar frá því að ég greindi frá ákvörðun minni um að gefa kost á mér til embættis forseta Íslands. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og kosningabaráttan hefur verið ævintýri út af fyrir sig, strembin á köflum en fyrst og fremst afar skemmtileg. Síðustu vikur höfum við Elísa verið á ferð og flugi og rætt við fjölda fólks um land allt og þetta hefur að mínu mati verið skemmtilegasti hluti kosningabaráttunnar, að hitta fólkið í landinu og heyra hvað það hefur að segja.

Í raun má segja að þetta fjörlega ferðalag hafi hafist af alvöru laugardaginn 21. maí þegar við hjónin lögðum land undir fót og boðuðum til fyrsta framboðsfundarins utan höfuðborgarsvæðisins. Það var í dásamlegu veðri á Akranesi, daginn eftir að formlegu framboði var skilað til innanríkisráðuneytisins ásamt meðmælalistum.

Við byrjuðum á að heimsækja heimilisfólkið á Höfða sem tók einstaklega vel á móti okkur. Því næst hittum við vaska sjálfboðaliða yfir kaffibolla í heimahúsi og litum svo við í Grundaskóla þar sem fram fóru æfingar fyrir kóramót eldri borgara. Þá var komið að opna fundinum í Tónbergi. Okkur til mikillar ánægju var fundurinn afskaplega vel sóttur, þar voru rúmlega 200 fundargestir úr öllum aldurshópum.

Þessi dagsferð á Akranes verður okkur Elísu eflaust minnisstæð. Fundurinn í Tónbergi var ákveðin frumraun fyrir okkur og ekki laust við að það væri svolítill fiðringur í frambjóðandanum. Fundurinn gekk þó vonum framar og ég fann að hugmyndir mínar um forsetaembættið áttu samhljóm með Skagamönnum sem styrkti trú mína enn frekar á erindi þessa framboðs. Andinn meðal fundargesta var góður og veitti okkur Elísu innblástur og gott veganesti fyrir ferðalagið sem í hönd fór.

Það sama var uppi á teningnum þegar við Elísa snerum aftur á Vesturland sunnudaginn 12. júní, reynslunni ríkari eftir fundahöld víðsvegar um landið. Eftir skemmtilega heimsókn í Brákarhlíð snæddum við hádegismat í Geirabakaríi og mættum svo í Félagsbæ til fundar við íbúa Borgarness og nærsveita. Næst lá leiðin til Ólafsvíkur í kaffispjall í félagsheimilinu og í Grundarfirði gafst okkur tími til að horfa á Íslendinga leggja Portúgala 26-23 í umspili um sæti á heimsmeistaramóti karla í handbolta. Ferðinni lauk svo með líflegum opnum fundi í salarkynnum tónlistarskólans í Stykkishólmi.

Á flakkinu um Vesturland varð mér hugsað til Gunnars Thoroddsen, þess mikla stjórnmálaskörungs og fyrrum forsetaframbjóðanda, sem var fyrst kjörinn á þing árið 1934 og var þá í framboði í Mýrasýslu. Þegar ég skrifaði ævisögu Gunnars fyrir nokkrum árum þótti mér sérlega fróðlegt að kynna mér hvernig staðið var að framboðsmálum í þá daga, þegar menn fóru ríðandi milli bæja og héldu fundi á hlöðuloftum. Nú förum við akandi og sýnum fundi í beinni útsendingu á Facebook, en þó aðferðirnar séu ólíkar snýst þetta auðvitað í grunninn um það sama; að tala við fólk, hlusta á hvað því brennur á hjarta og segja frá sinni sýn. Þetta hefur mér þótt afar skemmtilegt og það er líka eins gott nái ég kjöri, því forseti verður alltaf að halda nánu sambandi við fólkið í landinu.

Mín upplifun af heimsóknunum tveimur á Vesturland er sú að þar ríki bjartsýni og sóknarhugur meðal fólks og er það ekki nema von í landshluta þar sem svo fjölbreytt og öflugt atvinnulíf dafnar samhliða blómlegri menningarstarfsemi. Ég hef lagt áherslu á að forseti sé bjartsýnn og hafi ekki allt á hornum sér, enda þekkjum við öll úr daglegu lífi að bjartsýni gerir öll viðfangsefni okkar auðveldari viðureignar. Við höfum ekkert að óttast. Ef við erum óhrædd við breytingar og óhrædd við að treysta lýðræðinu, ef við stöndum saman og látum mótlæti ekki sundra okkur, þá eru okkur allir vegir færir. Þá mun okkur farnast vel.

Mér þykir alltaf gaman að fara um Vesturland enda fáir staðir á landinu sem búa yfir jafn ríkri sögu og magnaðri náttúru í bland. Vesturland er vagga Íslendingasagnanna og í þeim menningararfi felst gríðarleg sérstaða. Amma mín, Margrét Thorlacius, ólst upp á Hjörsey á Mýrum og var stolt af því og kunni margar sögur úr landshlutanum. Við Elísa hefðum gjarnan viljað staldra lengur við á Vesturlandi en því miður hefur tíminn verið af skornum skammti í kosningabaráttunni. Það er hinsvegar ljóst að hvernig sem kosningarnar fara þann 25. júní þá hlökkum við til að koma aftur og verðum við ævinlega þakklát fyrir þann hlýhug og þá góðvild sem mætti okkur hvarvetna í heimsóknum okkar. Takk fyrir okkur!

 

Guðni Th Jóhannesson.

Höf. er í framboði til forseta Íslands í kosningunum 25. júní nk.