Endurheimtum Langasand!

Már Karlsson og Ormar Þór Guðmundsson

Athugasemdir vegna aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir Sementsverksmiðjureitinn á Akranesi

 

Bygging Sementsverksmiðjunnar á Akranesi var stórvikri á sinni tíð og rekstur hennar stuðlaði mjög að uppbyggingu staðarins síðastliðna hálfa öld.

En staðarval hennar, sem á sínum tíma var mjög umdeilt, mundi í dag vera kallað umhverfisslys. Á það bæði við um byggðina í bænum og náttúruna.

Staðsetning stórra húsa og ýmissa mannvirkja nánast ofan í miðju bæjarins var hrapaleg og náttúruspjöll voru unnin með því að leggja undir skeljasandsþró stóran hluta af Langasandi, sem var og er einstakt náttúrudjásn, sem á sér ekki sinn líka í neinu bæjarfélagi hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Nú hefur starfsemi verksmiðjunnar verið hætt og fyrir liggur skipulagstillaga sem ætti m.a. að fjalla um hvernig megi endurheimta þau umhverfisgæði sem spillt var.

Lagt er til að rífa megnið af byggingum verksmiðjunnar og nýta landið fyrir blandaða byggð í góðum tengslum við gamla miðbæinn, og er það vel.

Verra er að samkvæmt skipulagstillögunni á ekki að fjarlægja skeljasandsþróna og endurheimta þannig mikilvægan hluta Langasands, sem er sunnan við Jaðarsbraut og nær allt að byggðinni í elsta hluta bæjarins.

Þvert á móti er ætlunin að festa endanlega í sessi þessi náttúruspjöll og skemmd á útliti bæjarins með húsaþyrpingum sem eiga að rísa á sandþrónni.

Með þessum húsaþyrpingum yrði einnig vegið að hinni gömlu og fallegu bæjarmynd, þar sem þær myndu rísa fyrir framan húsin við Jaðarsbraut, en þau hús mynda eina heildstæðustu götumynd í bænum með húsum sem eru vel samræmd og í þeim stíl sem nefndur hefur verið hinn „íslenski funkisstíll“. Útsýn niður á Langasand, til sjávar og allt til Reykjavíkur yrði einnig tekin af Jaðarsbrautarhúsunum.

Með því að endurheimta vesturhluta Langasands myndi gamla bæjarmyndin á þessu svæði njóta sín á ný, en hluti af henni eru Langisandur og Jaðarsbakkar. Til þess að svo megi verða þarf að breyta núverandi legu Faxabrautar þannig að hún færist nær Suðurgötu og Jaðarsbraut. Brautin mundi liggja lægra en þessar götur þannig að útsýni frá húsum við þær yrði óskert og hávaða frá umferð lítið gæta. Í þessari legu mundi einnig ágangi sjávar í stórviðrum gæta mun minna en í núverandi legu.

Í stað mjúkrar beygju, áður en Faxabrautin fer yfir Jaðarsbrautina, kæmi kröpp beygja með sama radius og er í hringtorginu litlu ofar.

Umferð gangandi og hjólandi barna og fullorðinna um Jaðarsbraut að íþróttasvæðinu og baðaðstöðunni á Langasandi er og verður jafnan töluverð. Hraður akstur þungra bíla á þessum stað er því hættulegur. Með krappri beygju við Jaðarsbraut og hringtorginu litlu ofar yrði komið í veg fyrir hann.

Með endurheimtu vesturhluta Langasands næði sandurinn upprunalegri stærð og náttúrulegum glæsileik. Þannig myndi sandurinn teygja sig allt að nýrri uppbyggingu á Sementsreitnum og gamla kjarna bæjarins og verða með því móti aftur ríkur hluti af ímynd bæjarins.

Langisandur er frábært útivistarsvæði, til gönguferða, leikja og íþrótta, þar með töldum sjóböðum. Ómetanlegt er því að fá hann í náin tengsl við uppbygginguna á Sementsverksmiðjureitnum og byggðina þar í kring. Með tilliti til þess er mikilvægt að gera öruggar gönguleiðir að honum með göngum undir eða brúm yfir Faxabrautina.

 

 

Reykjavík 30. ágúst 2017

Már Karlsson verkfræðingur og Ormar Þór Guðmundsson arkitekt.

 

(Í prentútgáfu Skessuhorns, sem kom út í dag,  fylgir auk þess  mynd þar sem sést endurheimtur Langasandur og hugsanleg framtíðarlega Faxabrautar).