Áfram veginn

Jónína Erna Arnardóttir

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í annað til þriðja sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, en prófkjörið fer fram laugardaginn 3. september. Ástæða þess að ég býð mig fram er að ég vil gjarnan vinna að mikilvægum framfaramálum kjördæmisins.  Standa þarf vörð um grunnþjónustu eins og heilbrigðis- og menntamál, en einnig er ljóst að tvö mál skera sig nokkuð úr þegar verið er að ræða grunnþjónustuna.

Þar er fremst í flokki að halda þarf áfram að ljósleiðaravæða allt landið, dreifbýli jafnt sem þéttbýli.  Það er atvinnu- og mannréttindamál að allir landsmenn sitji við sama borð hvað varðar aðgengi að góðum nettenginum. Nettengingar eru grundvallaratriði t.d. fyrir menntunarmöguleika, markaðssetningu á vörum og þjónustu, sérstaklega ferðaþjónustu. Þarna þurfum við að bæta í og ljúka þessu verkefni, því þetta eru „þjóðvegir nútímans“.  Þetta snýst ekki bara um útgjöld, því ég er viss um það að með auknum tækifærum allra landsmanna til að stunda atvinnu eða nám í gegnum netið þá muni tekjur aukast verulega til framtíðar og gera mörg fyrirtæki á landsbyggðinni lífvænlegri og stórauka tækifæri þar af öllum toga.

Annað mál sem einnig er stórt hagsmunamál fyrir okkur í kjördæminu eru bættar samgöngur.  Nauðsynlegt er að auka fjármagn til vegakerfisins, umferð hefur aukist mikið með auknum fjölda ferðamanna. Fyrir liggur tillaga að samgönguáætlun þar sem t.d. er samþykkt að gera átak í að leggja slitlag á umferðarlitla vegi. Þetta myndi koma mörgum íbúum í dreifbýli geysilega vel og efla öryggi.  Þessu þarf að fylgja fast eftir. Einnig þarf að tvöfalda eða gera svokallaðan tveir plús einn veg frá Mosfellsbæ í Borgarnes. Ljúka þarf veginum um Barðaströnd og tengja suður- og norðurfirði Vestfjarða, svo nokkur mikilvæg mál séu nefnd.  Það er ljóst að ríkissjóður hefur verið að fá mun meira fé úr bensíngjaldi og virðisaukaskatti á bifreiðar undanfarið með meiri ferðamannastraumi og það er þjóðþrifamál að veita þessum peningum í vegakerfið, bæta samgöngur og þar með bæta þjóðarhag.

Leiðarstef stefnu Sjálfstæðisflokksins er að fólk og atvinnulíf hafi tækifæri til vaxtar og þróunar. Með átaki í þessum hagsmunamálum þá mun tækifærunum fjölga, atvinnusvæðin eflast og byggðin þróast á jákvæðan hátt.

 

Jónína Erna Arnardóttir.