Að vera Norðdælingur

Þórhildur Þorsteinsdóttir

Að vera Norðdælingur virðist vera bara nokkuð næs. Við búum við þjóðveg nr 1, umferð allan sólarhringinn, við búum við Norðurá sem er fegurst áa að okkar mati og náttúrufegurðin er allsráðandi. En við í þessum fallega dal, lítið samfélag sem er ólíkt, þ.e.a.s. íbúar/ eigendur jarða höfum mismunandi sýn á ýmislegt en erum þó sammála um ýmislegt.

Í fyrstu skulum við tala um laxeldi í sjó. Að eldislax streymi upp í laxveiðiárnar með tilheyrandi tjóni fyrir lífríkið og þá atvinnustarfsemi sem stunduð er á árbökkunum. Veiðifélag Norðurár er elsta veiðifélag landsins. Vissuð þið það? Í hartnær 100 ár hafa bændur og landeigendur unnið saman að því að nýta þá auðlind sem áin er. Hér hefur verið hlúð að ánni í áranna rás, rannsóknir á lífríki hennar stundaðar, veiðihús byggð og þjónusta í kringum veiðimennskuna bætt frá ári til árs. Allt til þess að þessi fallega og gjöfula á fengi að blómstra. Og hingað sækja veiðimenn ár eftir ár til að veiða – glíma við Norðurárlaxinn, komast á uppáhalds veiðistaðina sína en líka til að njóta friðsældar og fallegs umhverfis. Hvernig eigum við að fara að því að verja árnar okkar fyrir eldislöxum sem nú hópast í árnar til að hrygna? Hvað veldur því að ráðamönnum þjóðarinnar er bara skítsama um villta laxinn? Af hverju er látið eins og atvinnugreinin „laxveiði“ skipti bara engu máli? Skiptir það bara engu máli að stangveiðin skapi 1200 störf, velti tugum milljarða og að 2250 lögbýli hafi af henni beinar tekjur? Hver vill svara því?

Í Norðurárdal var blómlegur búskapur allt fram til 1990 en þá fór hann að hnigna. Undanfarna mánuði/ár hefur verið talsverð umræða um afkomu bænda við hefðbundinn landbúnað. Þar eru hækkanir á aðföngum mest afgerandi og ekki síður launahækkanir sem er kostnaðarauki í rekstri. Bændur um allt land í öllum búgreinum hafa verið að gera hvaðeina sem í þeirra valdi stendur til að hagræða í sínum rekstri en það hefur ekki dugað til þannig að fleiri og fleiri eru að sjá á eftir launum. Það er ekki staða sem getur gengið áfram og engin sanngirni í því. Vaxtahækkanir hafa bitið fast í íslenskan landbúnað sem hefur gengið í gegnum mikla hagræðingu undanfarin ár með tilheyrandi fjárfestingu í starfsaðstöðu og tækjum. Möguleikar fyrir nýliða til að koma inn í greinina eru því vandasamir. Gleymum því ekki að ábyrgðinni er alltaf velt á bændur. Þeir eiga að hagræða í sínum rekstri, framleiða gæðavörur með lágu kolefnisspori, undirgangast auknari kröfur en viðgengst með innflutt matvæli en tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Stuðningur við greinina er orðinn í skötulíki þar sem veikburða tollvernd og sí-minnkandi stuðningsgreiðslur við greinina duga hvergi til. Á sama tíma ætlar þjóðin greininni stórt hlutverk í að tryggja fæðu- og matvælaöryggi og vera um leið grunnstoð í byggðafestu. Það þarf ekki að tala kjark í íslenska bændur né hafa samúð með þeim. Það þarf hins vegar að skapa þann rekstrargrundvöll fyrir bændur að þeir geti haft laun fyrir vinnu sína og tíma til að sinna eðlilegu fjölskyldulífi.

Þegar maður les um tugmilljarða hagnað bankanna þá spyr maður sig hvort ætli að sé mikilvægara; að telja peninga eða að framleiða mat? Hver ætlar að svara því?

Nú síðan erum við að berjast við vindmyllur hér í dal. Okkur finnst að náttúran eigi ekki málsvara hjá ríkisvaldinu. Hún á ekkert ráðuneyti á sama tíma og hún ætti að eiga stærsta ráðuneytið. Almenningur þarf handahófskennt að verja náttúruna og oftar en ekki heimavöllinn fyrir allskonar sturluðum hugmyndum erlendra stórfyrirtækja. Og enn og aftur komum við að okkar stolti sem er Norðurá; áin hefur verið í á aðra öld á viðkvæmu og náttúru tengdu ferðaþjónustusvæði. Að breyta umhverfi Norðurár í iðnaðarsvæði undir orkuver og nærliggjandi landsvæðum í áhrifasvæði fyrir stóriðju myndi að mati veiðifélagsins og okkar landeigenda stórskaða náttúru tengda atvinnustarfsemi Norðurár og „gjörbylta þeirri upplifun sem við og gestir okkar njóta við þessa einstöku veiðiperlu.“ Slík stóriðja myndi hafa áhrif á náttúru, lífríki, útsýni, ásýnd og orðspor Norðurár. Og hver vill svara fyrir það?

Já, það eru næg verkefnin í Norðurárdalnum þessi misserin.

 

Þórhildur Þorsteinsdóttir, bóndi á Brekku