Magnús Scheving lýsti hugmyndum sínum um starfsemi í LazyTown studio. Ljósm. mm.

Kynntu hugmyndir um stofnun LazyTown studio í Borgarnesi

Í gærkveldi héldu forsvarsmenn verkefnisins um uppbyggingu LazyTown studio í Borgarnesi opinn kynningarfund í Hjálmakletti fyrir íbúa um hvar verkefnið er statt og næstu skref í því. Framsögu höfðu Helga Halldórsdóttir hvatamaður að verkefninu, Margrét Katrín Guðnadóttir kaupfélagsstjóri, Magnús Scheving frumkvöðull og Páll Kr Pálsson verkefnisstjóri. Eftir framsögu þeirra var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal. Verkefnið LazyTown studio er í stuttu máli skilgreint sem upplifunarsetur heilsu og hollustu í anda þess boðskapar sem þættirnir um Latabæ boðuðu. Viðskiptahugmyndin byggist á að byggja upp ferðaþjónustustað þar sem lögð verður áhersla á afþreyingu og upplifun í formi þema um Latabæ og viðburðaseturs, en auk þess veitingasölu. Sú staðsetning sem nú er horft til er Digranesgata 4 og 4a í Borgarnesi þar sem veitingastaðurinn Food Station er nú en auk þess á samliggjandi óbyggða lóð sem nær að Arion bankahúsinu, eða væntanlegu Ráðhúsi Borgarbyggðar. Sótt verður um leyfi til að byggja ofan á klettinum sem liggur að lóðunum við Digranesgötu. Fram kom á fundinum að skipulagsyfirvöld og fulltrúar úr sveitarstjórn hafi tekið jákvætt í að hefja vinnu við nýtt skipulag þannig að starfsemin rúmist á svæðinu.

Þemað er heilbrigður lífsstíll

Hópurinn sem stóð að kynningarfundinum í Hjálmakletti. F.v. Gunnar Jónsson, Helga Halldórsdóttir, Margrét Katrín Guðnadóttir, Þórdís Sif Sigurðardóttir, Magnús Scheving og Páll Kr Pálsson.

Í upphafi fór Helga Halldórsdóttir lauslega yfir sögu Latabæjar, þróun og sköpun og gat þess að Magnús Scheving, sem ólst upp í Borgarnesi, hafi nýtt reynslu sína úr uppvextinum við gerð þáttanna, jafnvel eiga persónur Latabæjar fyrirmyndir í Borgarnesi. Þá kom fram að Latibær er langþekktasta vörumerki Íslands, en fram kom hjá Magnúsi að 71% íbúa tíu stærstu þjóða heims þekki vörumerkið LazyTown. Það íslenska fyrirtæki sem kemur næst í röðinni er Icelandair en vörumerki þess þekkja 0,03% íbúa sömu þjóða. Tækifærin í að gera upplifunargarð í anda Latabæjar eru því mikil og binda forsvarsmenn verkefnisins miklar vonir til þess að eftirsótt verði að heimsækja stað þar sem saga þáttagerðarinnar verður rakin á lifandi hátt. Lögð verður áhersla á heilbrigðan lífsstíl í anda Latabæjar og sagði Magnús Scheving meðal annars: „við viljum tóna Latabæ niður en hugmyndafræðina á bak við hann upp.“

Koma Borgarnesi á kortið

Helga gat þess einnig að fengist hafi styrkir til undirbúnings verkefnisins frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Lóusjóði ríkisins. Hún sagði að mikil vinna hafi að undanförnu farið í að leita að hentugri staðsetningu fyrir verkefnið. Sú leit hefði leitt til þess að hentugt hefði þótt að leita samstarfs við Kaupfélag Borgfirðinga um að nýta Digranesgötu 4a þar sem nú eru rekin tvö veitingahús ásamt byggingarétti á samliggjandi lóð. Þetta þyki hentug staðsetning við innkomuna í Borgarnes og gefi það auk þess möguleika að stækka athafnasvæðið ef vilyrði fæst til að byggja ofan á klettinn aftan við lóðina. Sagði hún að fulltrúar úr sveitarstjórn hafi verið kynntar hugmyndirnar og hafi þeir tekið jákvætt í þær. Ef sveitarstjórn samþykkir formlega afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar hefst formlegt ferli við breytingu aðalskipulags. Helga sagði að markmið aðstandenda verkefnisins væri að efla sveitarfélagið og koma Borgarnesi rækilega á kortið sem heilsu- og hollustubæ.

Vill virkja heimafyrirtæki í uppbyggingu

Margrét Katrín Guðnadóttir kaupfélagsstjóri kynnti aðkomu kaupfélagsins að verkefninu, en Borgarland á lóðina sem um ræðir og hús Food Station sem stendur á hluta hennar. Sagði hún að verkefnið félli vel að markmiðum Kaupfélags Borgfirðinga og félagsmanna þess og vilji stjórnar KB væri fyrir því að vinna því brautargengi. Nefndi hún að rætt hafi verið við forsvarsmenn fyrirtækja í heimabyggð um að koma að uppbyggingu í samráði við Borgarland, en sagði þó að engin formleg svör lægju fyrir þar að lútandi.

Stolt af sögunni

Magnús Scheving fór í kynningu sinni vítt og breitt yfir möguleika Borgarness og héraðsins alls í uppbyggingu aukinnar þjónustu. Minnti hann á þá uppbyggingu sem nú væri í gangi í gamla miðbæ Selfoss og að Borgarnes hefði síst minni möguleika en Suðurlandið. „Borgarnes er fallegt bæjarstæði en einkenni staðarins er vissulega að hér keyra flestir í gegn án þess að stoppa. Nú er ferðamennska alls staðar að breytast og eftirspurn eftir afþreyingu og sérstöðu er að aukast. Því sjáum við gríðarleg tækifæri í þessu verkefni. Spurningin er bara hvernig við skilgreinum það, vinnum því fylgi og framkvæmum,“ sagði Magnús. Hann sagði mikilvægt að heimamenn væru hliðhollir verkefninu frá upphafi, því án slíkrar afstöðu væri vonlaust að það yrði farsælt. Fór hann í máli sínu yfir styrkleika og veikleika Borgarness og að menn þyrftu að vera stoltir af sögunni sem þar leynist við hvert fótmál. Nefndi hann Brákarey, Englendingavík og fjölmarga aðra staði sem búa yfir sögu og fegurð en mætti lyfta á hærra plan. Bæjarstæðið eitt og sér og möguleikar á hringferðum um fjölbreytt og fallegt Borgarfjarðarhérað væru tækifæri, ekki síðra tækifæri en Sunnlendingar hafi nýtt sér.

Langþekktasta vörumerki landsins

Loks fór Magnús Scheving yfir þau tækifæri sem felast í að nýta sögu og ímynd Latabæjar með upplifunargarði sem þessum í Borgarnesi. Sagði hann að á Latabæ væri horft á 500 milljón heimilum í um 180 löndum um allan heim. Fólkið sem nú væri að eignast börn, á aldrinum 19-26 ára, hefðu sjálf alist upp við Latabæ og þann boðskap sem þættirnir standa fyrir. Þetta fólk væri líklegt til að vilja fara í „pílagrímsferðir“ til þess staðar sem allt hófst á. Sagði hann að hugmyndin með verkefninu fælist í að segja segja sögu þáttagerðarinnar sem hófst hér á landi og verður því stúdíó sett upp þar sem gestir geta kynnst því sem gerist baksviðs. „Hér verða því salir, stúdíó, skemmtigarður og veitingahús uppi á klettunum þaðan sem hægt er að horfa yfir héraðið.“ Minnti hann á að Latibær hafi verið fyrstu sjónvarpsþættirnir sem framleiddir voru á Íslandi til útflutnings. „Borgarnes á að vera stolt af sögu sinni. Hér vantar sérhæfingu í túrismann. Sú sérhæfing getur vissulega falist í því að Stína Símalína bjó hér raunverulega og starfaði,“ sagði Magnús. „Ef samfélagið hér í Borgarnesi er opið fyrir þessum hugmyndum, er ég sannfærður um að þetta á eftir að takast. Við viljum byggja upp skemmtilegan stað þar sem ekki einvörðungu börn sækjast eftir að koma, heldur einnig foreldrar þeirra, ömmur og afar.“

Breytt aðkoma

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri lýsti á fundinum ánægju sinni með hugmyndirnar. Sagði hún að sveitarstjórnarfólk hefði fengið kynningar á verkefninu af og til að undanförnu og litist fólki almennt vel á það sem fram hefur komið, þótt vissulega væru hugmyndir stöðugt að þróast. Sagði hún að nú yrði unnið með hugmyndir um staðsetninguna við Digranesgötu, en fara þurfi í breytingu á skipulagi. Skipulags- og bygginganefnd hefði lýst sig reiðubúna til að vinna að framgangi hugmyndarinnar. Gat hún þess jafnframt að samhliða þessari uppbyggingu ef af henni verður, muni innkeyrslan í Borgarnes að sunnan breytast. Hafa þurfi samráð við Vegagerðina og fleiri hvað það snertir.

Margt óljóst ennþá

Síðustu framsögu á kynningarfundinum hélt Páll Kr Pálsson hagverkfræðingur og verkefnisstjóri. Hann sagði að nú væri í gangi vinna við gerð þriðju viðskiptaáætlunar um verkefnið. Rakti hann ferilinn sem slíkt frumkvöðlaverkefni þarf að fara í gegnum áður en hægt verður að leggja fram fullmótaða áætlun, fjármagna uppbyggingu og hefja framkvæmdir. Slíkt ferli fæli m.a. í sér afmörkun viðskiptahugmyndar, hönnun, verkfræðilega vinnu og arkitektúr, tilboðsgerð og stofnfjáráætlun. Reyndist verkefnið arðbært væri svo næsta skref að fjármagna það. Páll gat þess að á grundvelli markaðsrannsókna væri búist við 35-50 þúsund gestum á ári fyrstu fjögur árin. Betra væri að slíkar áætlanir væru varfærnar en raunhæfar en vel mætti vera að gestafjöldi yrði meiri, það yrði þá bara jákvætt. „Stuðningur umhverfisins hér í Borgarnesi og héraðinu öllu við verkefnið sem slíkt er þó lykilatriði,“ sagði Páll. Tímarammi um hvenær framkvæmdir gætu hafist og upplifunargarður í anda LazyTown gæti opnað er enn óljós. Páll sagði þó að í besta falli mætti áætla að það gæti orðið eftir tvö til þrjú ár. Aðspurður um stofnkostnað sagði hann það sömuleiðis ekki liggja fyrir, en það hlypi á hundruðum milljóna. Um mannaflaþörf sagði Páll að aldrei undir tíu ný heilsársstörf myndu skapast í Borgarnesi verði verkefnið að veruleika.

Íbúar sem kváðu sér hljóðs og spurðu frummælendur á fundinum lýstu ánægju sinni með hugmyndirnar. Af viðbrögðum þeirra að dæma nýtur hugmynd um stofnun og uppbyggingu LazyTown studios í Borgarnesi almenns stuðnings samfélagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir