Hjalti Þórhallsson garðyrkjubóndi á Laugalandi í Stafholtstungum. Búið á Laugalandi er eitt fárra sem hefur lýst upp gróðurhúsin að vetri, þrátt fyrir hátt raforkuverð. Reynslan og þekkingin er því sannanlega til staðar. Ljósm. úr safni/kgk.

Brestir þegar sýnilegir í fæðuöryggi Íslands

Skortur er nú fyrirséður á grænmeti hér á landi. Innlend framleiðsla er í lágmarki, meðal annars vegna stefnu stjórnvalda að niðurgreiða ekki meira en raun ber vitni raforku til grænmetisræktunar. Því standa gróðurhús víða um land ónotuð yfir vetrartímann. Nú eru grænmetisframleiðendur úti í heimi hættir að geta tryggt full afköst og því er fyrirséð að á fjarlægum mörkuðum, eins og á Íslandi, mun fyrst gæta vöruskorts við þessar aðstæður. Það var verslanakeðjan Samkaup sem vakti máls á ástandinu og hefur skorað á Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra að stuðla að því að innlend framleiðsla á grænmeti verði tafarlaust aukin. Áhrif kórónuveirufaraldursins á íslenskan landbúnað og sjávarútveg voru rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Það sem við sjáum gerast í Evrópu er að framboð er á niðurleið. Það þýðir að verð mun væntanlega hækka og við erum þegar farin að sjá það hækka. Þegar við sjáum verðhækkanir á innfluttum vörum þá höfum við áhyggjur af því að innlend framleiðsla muni ekki geta staðið undir þeirri auknu eftirspurn sem myndast þegar þessi ójafna kemur inn,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Samkaupum í samtali við fréttavef Ríkisútvarpsins í dag.

Hann segist binda vondir við aðgerðir ríkisstjórnar og nefnir niðurgreiðslu á raforkuverði og beingreiðslur sem mögulegar lausnir til að koma megi í veg fyrir langvarandi skort. „Nauðsynlegt sé að bæta í framleiðslu nú áður en skortur á framboði verður raunin,“ segir Gunnar Egill. „Það er ekki eins og það sé hægt að byrja í dag og vera tilbúinn með aukið framboð í næstu viku. Það tekur allt að sex til átta vikur að auka framleiðslu,“ bætir hann við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir