Krakkarnir í Grunnskólanum í Stykkishólmi fengu kennslu í skák í tvo daga undir handleiðslu Braga Þorfinssonar stórmeistara. Kennslunni endaði með skákmóti í gær þar. Krakkarnir í 1.-4. bekk áttust við um morguninn og 5.-10. bekkur öttu kappi síðdegis.

Skákin notuð til að draga nemendur frá símunum

Bragi Þorfinnsson, stórmeistari í skák, sótti Grunnskóla Stykkishólms nýverið heim og bauð upp á tveggja daga skákkennslu í öllum bekkjum skólans. Skákkennslunni lauk svo með taflmóti. Forsaga skákkennslunnar í grunnskólanum er sú að Íslandsmeistaramótið í atskák var haldið í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi í desember síðastliðnum. Safnið er sem kunnugt er sambyggt grunnskólanum. Þar buðu fulltrúar Skáksambands Íslands skólastjórnendum upp á að stórmeistari kæmi í heimsókn og kenndi börnunum skák. Berglind Axelsdóttir skólastjóri segir að strax hafi verið vel tekið í hugmyndina. „Þá höfðum við verið að velta því fyrir okkur hvað við ættum að gera varðandi snjallsímanotkun barnanna. Margir skólar hafa farið þá leið að banna snjallsíma, en við vildum ekki gera það. Við viljum frekar reyna að beina krökkunum í aðra iðju, takmarka þannig símanotkun og kenna krökkunum að umgangast símana. Settar voru nýjar reglur í skólanum og ákveðið að setja borð og stóla í opið rými í skólanum, en þar hafa nemendur aðgang að spilum og töflum. Skemmst er frá því að segja að það hefur reynst afar vel, okkur til mikillar ánægju. Nú er spilað og teflt öllum stundum,“ segir Berglind ánægð í samtali við Skessuhorn.

„Við verðum nefnilega að bjóða upp á eitthvað annað. Það er ekki nóg að banna bara símana, krakkarnir verða að hafa eitthvað fyrir stafni. Einn ótrúlega skemmtilegur fylgifiskur þessa er að það er miklu meiri hávaði í skólanum,“ segir Berglind og hlær við. „Þannig á það að vera, líf og fjör á göngunum í frímínútum,“ bætir hún við.

Börnin tóku vel í spilin og skákina, sem fyrr segir og Berglind segir að mikill áhugi hafi verið fyrir skákkennslunni og mótinu. „Krakkarnir eru mjög áhugasamir. Það máttu allir í 5.-10. bekk velja hvort þeir tækju þátt í skákkennslunni og það var um 90% þátttaka, sem er alveg frábært,“ segir hún og bætir því við að stjórnendur hafi hug á því að endurtaka leikinn. „Við ætlum að gera þetta aftur, ekki spurning. Það er almenn ánægja með þetta framtak, þetta hefur lukkast mjög vel og við höfum áhuga á að endurtaka leikinn jafnvel seinna í vetur, en það kemur í ljós síðar,“ segir Berglind Axelsdóttir skólastjóri að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir