Til stendur að endurgera 18 hjúkrunarrými í Stykkishólmi, samkvæmt áætlun ráðherra. Ljósm. úr safni Skessuhorns/sá.

Áætlun um uppbyggingu 155 hjúkrunarrýma á landinu

Fyrir liggur ný áætlun heilbrigðisráðherra um byggingu 155 hjúkrunarrýma til ársins 2022 til viðbótar þeim 313 rýmum sem þegar eru á framkvæmdastigi samkvæmt eldri framkvæmdaáætlun. Alls munu því verða byggð eða endurgerð 468 hjúkrunarrými á tímabilinu ýmist til fjölgunar rýma eða til að bæta aðbúnað. Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum nýja fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Með henni skapaðist svigrúm til aukinnar uppbyggingar hjúkrunarrýma sem áætlun heilbrigðisráðherra miðast við. Á höfuðborgarsvæðinu verður hjúkrunarrýmum fjölgað um 80 umfram gildandi áætlun og um tíu í Árborg. Uppbygging miðar einnig að því að bæta aðbúnað íbúa á nokkrum hjúkrunarheimilum þar sem þörf er á að færa aðbúnaðinn til nútímalegs horfs, í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Áætlað er að byggja 23 rými á Húsavík, 24 á Höfn í Hornafirði og endurgera 18 hjúkrunarrými í Stykkishólmi.

Áform um fjölgun rýma byggist á mati velferðarráðuneytisins á því hvar þörfin er mest og taka mið af fjárhagslegu svigrúmi gildandi fjármálaáætlunar. Áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu 155 hjúkrunarrýma er tæpir fimm milljarðar króna. Í áætluninni er miðað við lágmarksþátttöku hlutaðeigandi sveitarfélaga í framkvæmdakostnaðinum, þ.e. 15% á móti 85% kostnaði ríkissjóðs.

Af þeim 313 hjúkrunarrýmum sem nú eru á framkvæmdastigi eru 219 hjúkrunarrými til fjölgunar rýma en önnur til að bæta aðbúnað. Fjölgunin er fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, í Kópavogi, í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi. Einnig fjölgar rýmum á Suðurlandi með uppbyggingu hjúkrunarheimilis í Árborg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Sýningu Ísaks Marvins lýkur í dag

Grundfirðingurinn Ísak Marvins opnaði myndlistasýningu sína, Innsýn, í Samkomuhúsi Grundarfjarðar fimmtudaginn 18. október síðastliðinn. Sýningin er liður í dagskrá Rökkurdaga.... Lesa meira