Ráðherra við undirritun reglugerðanna í morgun. Fv. Ellý Alda Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri, Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og Hermann Jónasson forstjóri Íbúðalánasjóðs.

Íbúðir Íbúðalánasjóðs verði langtímaleiguíbúðir

Þorsteinn Víglundsson, ráðherra húsnæðismála, hefur falið Íbúðalánasjóði að grípa til sérstakra aðgerða vegna erfiðrar stöðu leigjenda. Í nýrri könnun sjóðsins kemur fram að hlutfall fólks á leigumarkaði sé enn að aukast. Í aðgerðunum nú felst að greiðsla húsnæðisbóta mun færast til sjóðsins frá Vinnumálastofnun, sem annast þær nú. Mun sjóðurinn fara í sérstakt átak til að auka útgreiðslur til fólks á leigumarkaði. Þá hefur ráðherra falið sjóðnum að undirbúa stofnun leigufélags sem muni eignast og leigja út þær íbúðir sem nú eru í höndum sjóðsins, á hóflegu verði. Um er að ræða tímabundna aðgerð til að bregðast við miklum skorti á hagkvæmu húsnæði til leigu. Síðar verður stefnt að því að íbúðir leigufélagsins fari í umsjá viðeigandi sveitarfélaga eða inn í nýtt kerfi leiguheimila sem nýtur opinberra stofnframlaga.

 

Nýtt hlutverk Íbúðalánasjóðs

Í þessum tilgangi hefur Þorsteinn Víglundsson undirritað tvær nýjar reglugerðir sem opna á þessar aðgerðir. Ráðherra segir að útgáfa reglugerðanna styðji við nýtt hlutverk Íbúðalánasjóðs sem sé að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði „Lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs takmarkast nú við félagsleg lán og lán til svæða þar sem önnur lán bjóðast ekki. Nú bætist við útgreiðsla húsnæðisbóta og aðkoma að fjölgun hagkvæmra leigubúða. Ég hef auk þess falið sjóðnum að annast víðtækt hlutverk á sviði efnahagsmála þar sem hagdeild sjóðsins framkvæmir hlutlausar greiningar á þróun húsnæðismála og miðlar þeim upplýsingum til almennings. Þá höfum við falið sjóðnum samræmingu nýrra húsnæðisáætlana sveitarfélaga og útdeilingu fjár í formi stofnframlaga til óhagnaðardrifinna byggingarverkefna,“ segir Þorsteinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir