Kynntu hugmyndir um nýja kynslóð búvörusamninga

Yfir hundrað manns sóttu kvöldfund með frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í mötuneyti Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri á þriðjudagskvöldið. Á fundinum kynntu Haraldur Benediktsson, oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, og Óli Björn Kárason alþingismaður, hugmyndir að nýrri byggða- og landbúnaðarstefnu. Sérstakur gestur var Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins en fundinum stýrði Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Að loknum framsögum sköpuðust líflegar umræður enda lá fundargestum ýmislegt á hjarta. Bændur fjölmenntu á fundinn auk annarra gesta sem voru á öllum aldri. Meðal þess sem hvað hæst bar á góma voru málefni landbúnaðarins, einkum sauðfjárræktarinnar, og samgöngumál. Fundurinn var sendur út í beinni útsendingu á Facebook en hægt er að horfa á upptökuna af fundinum á Facebook síðu flokksins í kjördæminu.

Haraldur Benediktsson kynnti hugmyndir að nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga, samninga um hvernig samfélagið getur fjárfest í íslenskum landbúnaði með það að markmiði að varðveita hreinleika afurðanna, vernda náttúruna og bæta nýtingu landkostanna. Tvinnast hugmyndir um aðgerðir í loftslagsmálum inn í hina nýju kynslóð landbúnaðarsamninga. „Með því að horfa á margt með nýjum hætti og leyfa okkur að hugsa út fyrir kassann, þá felast í því ótrúlega mikil tækifæri vegna þess að tækifærin liggja úti um allt. Og ég held að landsbyggðin komi jafnvel ennþá sterkar út úr því heldur en höfuðborgarsvæðið. Með nokkrum skýrum, einföldum markmiðum getum við samþætt hagsmuni þeirra sem búa í þéttbýli og dreifbýli og þannig stuðlað að því að höfuðborgin ræki sínar skyldur og landsbyggðin ræki sínar skyldur við höfuðborgina,” sagði Haraldur á fundinum.

Hann sagði að frambjóðendur átti sig vel á hversu viðkvæm staðan er orðin í byggðum landsins vegna stöðu sauðfjárbænda. „Það hlýtur því að vera og verður forgangsmál Sjálfstæðisflokksins fyrir og eftir kosningar að reyna að koma á þeim aðgerðum sem duga til þess að endurreisa viljann til búskapar og viljann til þess að halda áfram starfsemi,“ sagði Haraldur ennfremur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir