Hjalti Ásberg Þorleifsson lyftir sér upp í leiknum gegn Fjölni. Ljósm. Skallagrímur/ Ómar Örn.

Stórsigur Skallagríms á Fjölni

Skallagrímur vann öruggan sigur á Fjölnim, 86-63, þegar liðin mættust í annarri umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Leikið var í Borgarnesi í gær.

Heimamenn byrjuðu af krafti og höfðu undirtökin snemma leiks. Gestirnir hittu ekki úr skotum sínum og héldu skipulaginu ekki nógu vel. Fyrir vikið komst Skallagrímur í 12-3 um miðjan upphafsfjórðunginn. Gestirnir náðu þó að minnka muninn í sex stig áður en hann var úti, 20-14. Annar leikhluti var eign Skallagríms frá upphafi til enda. Þeir skoruðu nánast að vild og héldu gestunum í skefjum, en Fjölnir skoraði aðeins átta stig í öðrum fjórðungi. Staðan í hléinu 45-22 fyrir Skallagrím og heimamenn með unninn leik í höndunum.

Ekki fór mikið fyrir varnarleik í upphafi síðari hálfleiks og liðin skiptust á að skora auðveldar körfur. Skallagrímsmenn höfðu á einum tímapunkti 24 stiga forsystu en gestirnir náðu aðeins að koma til baka eftir því sem leið á þriðja leikhluta. Forskot Skallagríms var hins vegar mikið, þeir leiddu með 17 stigum fyrir lokafjórðunginn. Gangur leiksins breyttist lítið í lokafjórðungnum, nema hvað að Skallagrímur jók forskot sitt lítið eitt og vann að lokum stórsigur, 85-63.

Zac Carter var stigahæstur leikmanna Skallagríms með 19 stig, en Eyjólfur Ásberg Halldórsson var með 18 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Kristján Örn Ómarsson skoraði 13 stig og Darrel Flake var með 10 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.

Skallagrímsmenn hafa sigrað tvo fyrstu leiki vetrarins og hafa því fullt hús stiga enn sem komið er. Næst leikur Skallagrímur föstudaginn 13. október næstkomandi. Þá mætir liðið Hamri suður í Hveragerði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir