Starfsmaður á vegum landeiganda rukkaði gesti um bílastæðagjald í morgun.

Hófu í morgun meinta ólöglega gjaldheimtu á bílastæði

Í morgun hófu landeigendur að Hraunsási II í Hálsasveit innheimtu bílastæðagjalds við Hraunfossa í Borgarfirði. Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns í sumar ætluðu landeigendur að hefja gjaldtökuna 1. júlí síðastliðinn en frá því var horfið enda var og er slík innheimta talin stangast á við náttúruverndarlög. Gjaldtaka inn á friðlýst svæði krefst leyfis hlutaðeigandi stofnunar, sem er Umhverfisstofnun, og hyggst stofnunin ekki ljá því máls að þarna verði innheimt bílastæðagjöld. Í morgun hafði verið sett upp skilti við afleggjarann inn á svæðið og starfsmaður frá landeigendum rukkaði ferðafólk um bílastæðagjald frá 1500 krónum fyrir fólksbíl og upp í 6000 krónur fyrir rútur. Í verðlista sem dreift var í morgun í bíla sem komu inn á svæðið segir að nánari upplýsingar megi fá með að senda tölvupóst á parking.iceland@gmail.com. Ekki eru gefnar upp nákvæmari upplýsingar um hverjir standa á bakvið hina meintu ólöglegu gjaldtöku. Skessuhorn hefur sent fyrirspurn á fyrrgreint netfang en ekki fengið svar.

Eins og kom fram í frétt Skessuhorns í lok júní í sumar er markmiðið með gjaldtökunni, að sögn landeigenda, að bæta aðstöðu á bílastæðum. Fram til þessa hafa þeir ekkert fjármagn lagt í framkvæmdir við bílastæðin sem alla tíða hafa verið kostuð af Vegagerð og Umhverfisstofnun. Eigendur jarðarhlutans Hrausáss II eru þrír þekktir fjárfestar sem víða hafa komið við í viðskiptalífinu á liðnum árum. Þetta eru þeir Lárus Blöndal hrl. og forseti ÍSÍ, Guðmundur A Birgisson sem kenndur er við Núpa í Ölfusi ásamt Aðalsteini Karlssyni. Þremenningarnir keyptu Hraunsás II fyrir nokkrum árum og liggur þessi hluti jarðarinnar að fossunum og nær m.a. yfir um 90% af núverandi bílastæðum. Nokkur bílastæði eru í eigu annarra og leigð af núverandi veitingaaðilum við fossana.

Snorri Jóhannesson er eigandi veitingastaðar á svæðinu og jafnframt umráðamaður lands við fossana. Snorri vill að það komi skýrt fram að gjaldtaka þessi er ekki á hans vegum og þar að auki í algjörri óþökk hans. Snorri segir lítinn vafa leika á að gjaldheimta þarna standist ekki lög. Hann hafi í morgun kært gjaldtökuna til lögreglu og haft samband við Vegagerðina, sem brást skjótt við, fór á staðinn og tók niður skilti sem upplýsti um að bílastæðin væru gjaldskyld. „Ég mótmæli því algjörlega að einhver stöðvi bíla sem leið eiga inn á mitt atvinnu- og umráðasvæði,“ sagði Snorri í samtali við Skessuhorn.

Þessar upplýsingar fengu gestir sem í morgun mættu á bílastæðið við Hraunfossa.

Stærri hópferðabílar eru rukkaðir um 6000 krónur.

Þessu skilti var komið upp í morgun og fest á upplýsingaskilti Vegagerðarinnar. Það hefur nú verið fjarlægt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir