Lögregla er nýlega komin að Hraunfossum og ræðir þessa stundina við erlendan starfsmann H-fossa ehf. sem hefur frá því í morgun reynt að innheimta bílastæðagjöld við fossana. Ljósm. Skessuhorn/kgk.

Ætla að halda til streitu gjaldtöku á bílastæðin við Hraunfossa

Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns fyrr í dag hófst gjaldtaka á bílastæði við Hraunfossa í Borgarfirði í morgun í andstöðu við nágranna og yfirvöld. Samkvæmt túlkun m.a. Umhverfisstofnunar, Vegagerðar, sveitarfélagsins Borgarbyggðar og fleiri stenst gjaldtakan ekki lög um náttúruvernd þar sem segir að ólögmætt sé að innheimta gjald inn á friðlýst svæði án leyfis hlutaðeigandi stofnunar, þ.e. Umhverfisstofnunar. Lögmaður fulltrúa landeigenda hafnar þeirri túlkun eins og fram kemur í bréfi til Umhverfisstofnunar 25. september sl. sem Skessuhorn hefur undir höndum.

Þrír þekktir fjárfestar eru eigendur Hraunsáss II, þeir Lárus Blöndal hrl. og forseti ÍSÍ, Guðmundur A Birgisson sem kenndur er við Núpa í Ölfusi ásamt Aðalsteini Karlssyni. Þremenningarnir keyptu Hraunsás II fyrir nokkrum árum og liggur þessi hluti jarðarinnar að fossunum og nær m.a. yfir um 90% af núverandi bílastæðum. Fyrirtækið H-fossar ehf. leigir land Hraunfossa II af þeim Lárusi, Guðmundi, og Aðalsteini. H-fossar ehf. eru í eigu viðskiptafélaganna Guðlaugs Magnússonar og Kristjáns Guðlaugssonar og starfar Hödd Vilhjálmsdóttir í umboði þeirra sem fjölmiðlafulltrúi. Hödd staðfestir í samtali við Skessuhorn að nú verði innheimtu bílastæðagjalds haldið til streitu við Hraunfossa, enda túlki lögmaður H-fossa að því sé ekkert til fyrirstöðu. Þeir Guðlaugur og Kristján voru staddir við Hraunfossa í dag en vildu ekki veita blaðamanni Skessuhorns viðtal þegar eftir því var leitað. Þess má geta að þeir Guðlaugur og Kristján ætla sér stóra landvinninga í borgfirskri ferðaþjónustu. Þeir eru jafnframt nýir eigendur að veitingastaðnum og versluninni Baulunni í Stafholtstungum, keyptu Langaholt ehf. rekstrarfélag staðarins, og hafa rekið frá 1. september síðastliðnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Slasaðist við Glym

Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Ungur karlmaður hafði hrasað og dottið illa í... Lesa meira