Verið að tryggja áframhald fiskmarkaðar á Akranesi

Orðrómur hefur verið uppi um að til stæði að loka útibúi Fiskmarkaðs Íslands á Akranesi. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri segir að þótt vissulega hafi staðið tæpt með framtíð markaðarins síðan í ágúst, þá sjái hann fram á farsæla lausn og að áfram verði rekinn markaður, en með breyttu verkfyrirkomulagi. Það megi þakka  frumkvæði Gísla Gíslasonar hafnarstjóra hjá Faxaflóahöfnum að lausn er að fást í það mál. „Mér sýnist við vera með aðstoð fleiri góðra manna að tryggja að áframhald verði á starfsemi Fiskmarkaðs Íslands á Akranesi enda er starfsemi sem þessi afar þýðingarmikil fyrir þá útgerð sem hér er stunduð og verður stunduð í framtíðinni,“ segir Sævar í samtali við Skessuhorn. Hann segir þó ljóst að töluverð breyting verði á fyrirkomulagi starfseminnar. „Við erum einkum að vinna að lausn mála sem snerta t.d. fyrirkomulag löndunar, móttöku og geymslu á fiski og flutningstíma á markað í Reykjavík. Það skiptir okkur t.d. máli hvort fiskurinn er fluttur suður að kvöldi eða morguninn eftir. Ég er í það minnsta bjartsýnn á að með samstarfi forsvarsmanna Fiskmarkaðar Íslands, Faxaflóahafna og heimamanna að lausn sé að finnast sem  allir ættu að geta sætt sig við,“ segir Sævar Freyr.

Líkar þetta

Fleiri fréttir