Sauðfjárslátrun hefst í Borgarnesi í næstu viku

Fyrirhugað er að hefja í næstu viku sauðfjárslátrun í Sláturhúsi Vesturlands í Brákarey. Öll tilskilin leyfi eru til slátrunar í húsinu og því ekkert að vanbúnaði að hefja þar starfsemi. „Við erum hópur fólks úr héraði sem hefur undirbúið þetta að undanförnu og búið er að taka húsið á leigu af eigendum þess sem ekki höfðu sjálfir tök á að nýta það. Nú er ákveðið að hefja slátrun í næstu viku og að hún verði komin á fullt mánudaginn 25. september,“ segir Þorvaldur T Jónsson í Hjarðarholti í samtali við Skessuhorn, en hann er í forsvari fyrir undirbúningshópinn.

Þorvaldur að mikil þörf sé fyrir starfsemi af þessu tagi í héraðinu og þrýstingur á að aðstaðan og leyfið verði nýtt. „Við tökum sláturhúsið á leigu til reynslu en ef vel gengur verður þetta framtíðarrekstur. Við byrjum á dilkaslátrun núna, en áætlum að hægt verði að taka stórgripi til slátrunar síðar í haust. Þá höfum við í hyggju að bæta vinnsluna og munum að líkindum bæta við frystigámum til að hægt sé að geyma kjöt tímabundið. Við sjáum þetta engu að síður fyrir okkur sem þjónustusláturhús þar sem bændur koma sjálfir með féð til slátrunar, kjötið verði látið hanga í 2-3 daga en verði þá tekið og bændur sjái sjálfir um sölu þess.“ Þorvaldur gerir ráð fyrir að til að byrja með verði slátrað 80 lömbum á dag og að 5-6 muni starfa við slátrun. Leyfi er þó til auka verulega við þann fjölda, eða allt upp í 300 dilka á dag og mun eftirspurnin ráða því hvort bætt verði við. Jón Eyjólfsson á Kópareykjum verður sláturhússtjóri. „Við erum búin að manna þetta að hluta en vantar enn tvo vaska menn í slátrunina,“ segir Þorvaldur.

Sláturpantanir eru teknar á netfangið fyrirspurnir@slaturhus.is en einnig gefur Þorvaldur nánari upplýsingar í síma 853-6464.

Jón Eyjólfsson verður verkstjóri í sláturhúsinu í Brákarey.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir