Byrjað var í dag að moka fyrir nýju húsi sem brátt tekur að rísa við Stillholt 21. Ljósm. mm

Jarðvegsvinna að hefjast vegna blokkarbyggingar við Stillholt

Starfsmenn verktakafyrirtækisins Þróttar á Akranesi voru í dag að grafa holur í væntanlegt grunnstæði fyrir íbúðablokk við Stillholt 21 á Akranesi. Nú í framhaldinu verður síðan farið í jarðvegsskipti og framkvæmdir við bygginguna. Þarna mun samkvæmt upplýsingum frá tæknisviði Akraneskaupstaðar fyrirtækið Skagatorg ehf. byggja 37 íbúða blokk, sambærilega þeirri sem fyrirtækið byggði einnig á næstu lóð við hliðina, Stillholti 19 fyrir um tólf árum síðan.

Óhætt er að segja að aðdragandi að þessari byggingu sé langur og nokkur óvenjulegur. Í frétt Skessuhorns frá 2005 var greint frá því að miðað við þágildandi skipulag á Miðbæjarreit átti að byggja hús þetta á hornlóð á mótum Dalbrautar og Stillholts. Þegar jarðvegssýni voru tekin þar fannst hins vegar ekkert fast land undir, en grafið var niður á 33 metra. Því var horfið frá þeim hugmyndum að byggja á lóðinni og skipulagi reitsins síðar breytt og byggingarreitur færður nær blokkinni sem Skagatorg byggði á Stillholti 19. Á þeirri lóð voru 5-10 metrar niður á fast undirlag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir