Sælir hlauparar létu fara vel um sig í pottunum á meðan verðlaunaafhendingin fór fram og úrdráttur á vinningum. Ljósm. sla.

Hreppslaugarhlaup Umf. Íslendings hlaupið í fimmta sinn

Það mátti finna glaðværa en þreytta hlaupara í heitu pottunum við Hreppslaug í Skorradal síðasta dag ágústmánaðar. Þeir höfðu þá nýlokið við Hreppslaugarhlaupið sem Ungmennafélagið Íslendingur stóð fyrir en þetta var í fimmta sinn sem það var hlaupið. Alls voru 53 þátttakendur í hlaupinu sem skiptust á þær vegalengdir sem í boði voru;, 3, 7 og 14,2 kílómetra. Lengsta hlaupið var hringur um neðsta hluta dalsins eða frá Hreppslaug, niður að Borgarfjarðarbraut, upp norðanverðan Skorradalinn að Andakílsvirkjun og svo að lokum aftur að Hreppslaug. Hlaupið gekk vel en veður var þó misjafnt, í það minnsta höfðu tímaverðir orð á því að það gæti hafa verið hlýrra þegar þeir biðu með tímaklukkurnar í endamarkinu. Fyrstur í mark í lengsta hlaupinu var strandamaðurinn Birkir Þór Stefánsson úr hlaupahópnum Trölla en hann hljóp á tímanum 59:54. Það var hann mjög ánægður með en markmið hans var að ná undir klukkutíma. Að loknu hlaupi var svo veitingasala í laugarhúsinu, úrdráttur á vinningum og verðlaunaafhending fór fram á sundlaugarbakkanum við Hreppslaug sem hlaupið er kennt við. 87 ár eru síðan fyrsta sundnámskeiðið var haldið í henni og er hún núna friðlýst mannvirki. Miklar endurbætur fóru fram á laugarsvæðinu á síðasta ári og er það til mikillar fyrirmyndar.

 

Aðskóknin verið góð í sumar

Hlaupið hefur verið einskonar lokaviðburður sumarsins í sundlaug ungmennafélagsins, en þar hefur verið opið fyrir gesti yfir sumartímann en nú fer laugin í dvala þar til hún verður opnuð að nýju í vor. Að vísu nýta grunnskólanemarnir í grunnskóladeild GBF á Hvanneyri laugina fyrstu vikur skólaársins í sundkennslu fyrir sína nemendur og er hún því ekki alveg komin í dvala enn sem komið er. Að sögn Sigurðar Guðmundssonar, formanns Umf. Íslendings, hefur aðsóknin verið með ágætum þetta sumarið og er hann spenntur fyrir því að opna sundlaugina aftur næsta sumar. Auk hlaupsins hefur verið mikið um að vera hjá félaginu síðustu daga. Á mánudeginum fyrir hlaupið fór fram Ármót í sundi í lauginni og síðasta sunnudag hélt félagið Sverrismót í knattspyrnu á Sverrisvelli á Hvanneyri. Mótið og völlurinn eru nefnd í höfuðið á Sverri Heiðari Júlíussyni knattspyrnuþjálfara frá Hvanneyri.

 

Skaginn 3x afhendir hjartastuðtæki

Í tilefni af því að þarna voru komnir saman fjölmargir unnendur laugarinnar var tækifærið nýtt til afhendingar á gjöf til Umf. Íslendings. Það var tæknifyrirtækið Skaginn 3x sem gaf félaginu hjartastuðtæki sem verður staðsett í laugarhúsinu. Barnabörn Ingólfs Árnasonar aðaleiganda fyrirtækisins afhentu Sigurði tækið og um leið og hann þakkaði þá rausnarlegu gjöf hafði hann á orði að það myndi vonandi aldrei verða notað og myndi aðeins safna ryki uppi á hillu en það væri þó mjög mikilvægt að tækið væri til staðar fyrir öryggi sundlaugargesta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Sýningu Ísaks Marvins lýkur í dag

Grundfirðingurinn Ísak Marvins opnaði myndlistasýningu sína, Innsýn, í Samkomuhúsi Grundarfjarðar fimmtudaginn 18. október síðastliðinn. Sýningin er liður í dagskrá Rökkurdaga.... Lesa meira