Einar Örn Guðnason úr Kraftlyftingafélagi Akraness hampaði Íslandsmeistaratitlinum í 105 kg flokki í réttstöðulyftu og í bekkpressu með útbúnaði. Ljósm. Sveinn Þór.

Fjöldi meta var sleginn á Akranesi um helgina

Þrjú Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum fóru fram á Akranesi um liðna helgi. Keppt var í íþróttahúsinu við Vesturgötu og mótshaldari var Kraftlyftingafélag Akraness.

Á laugardeginum var keppt í bekkpressu. Kraftlyftingafélag Akraness eignaðist þar Íslandsdsmeistara því Einar Örn Guðnason sigraði 105 kg flokk karla með lyftu upp á 225 kg þá vann Viðar Engilbertsson til silfurverðlauna í 93 kg flokki karla með lyftu upp á 110 kg.

Einar Örn hrósaði einnig sigri í stigakeppni karla. Sigurlyfta hans í 105 kg flokki skilaði honum 134,5 Wilksstigum.  Stigahæst kvenna varð Sóley Margrét Jónsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Hún lyfti mest 120 kg og hlaut 100,7 Wilksstig fyrir vikið.

 

Metaregn í klassískri bekkpressu

Félagar úr Kraftlyftingafélagi Akraness gerðu einnig gott mót í klassísku bekkpressunni. Steinunn Guðmundsdóttir hreppti silfurverðlaun í 72 kg flokki kvenna með 65 kg lyftu, Einar Örn fékk silfur í 105 kg flokki karla með 182,5 kg, Bjarki Þór Sigurðsson fékk silfrið í 120 flokki karla með 155 kg og Viðar Engilbertsson hreppti bronsið í 93 kg flokki karla með 125 kg lyftu.

Stigahæst voru þau Ingimundur Björgvinsson og Fanney Hauksdóttir, bæði úr Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur. Fanney sigraði í 63 kg flokki kvenna með lyftu upp á 107,5 kg sem skilaði henni 115,9 Wilksstigum. Ingimundur sigraði 105 kg flokk karla á nýju Íslandsmeti með 200 kg og 120,7 Wilksstig.

Fleiri met féllu í klassískri bekkpressu á mótinu á Akranesi. Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir úr KFR setti met í klassískri bekkprssu í 57 kg flokki með lyftu upp á 81 kg. Viktor Ben Gestsson úr KFR tók metið í +120 kg flokki (opnum aldursflokki og U23) með 205 kg lyftu og Sóley Margrét setti nýtt met í +84 kg flokki U18 og U23 með lyftu upp á 82,5 kg.

 

Júlían JK og Sóley stigahæst í réttstöðu

Á sunnudag fór síðan fram Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu. Kraftlyftingafélag Akraness eignaðist þar þrjá Íslandsmeistara. Viðar Engilbertsson sigraði í 93 kg flokki karla með lyftu upp á 235 kg, Einar Örn sigraði í 105 kg flokki með 285 kg lyftu og Bjarki Þór sigraði í 120 kg flokki með 290 kg.

Í stigakeppninni urðu hlutskörpust þau Sóley Margrét í kvennaflokki og Júlían J.K. Jóhannsson í karlaflokki. Sóley sigraði í +84 kg flokki kvenna með 200 kg lyftu í þriðju tilraun. Skilaði lyftan henni 167,9 Wilksstigum og naumu forskoti á Örnu Ösp Gunnarsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Mosfellsbæjar sem hafnaði í öðru sæti.

Júlían keppti, líkt og Sóley, í yfirþungavigt og vann þar öruggan sigur með lyftu upp á 370 kg. Hlaut hann einnig stigabikar karla með 201,5 Wilksstig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir