Gönguhópurinn að skoða nýfundnar minjar. Meirihluti hópsins stendur á langvegg fjær og má sjá móta fyrir skála þvert yfir miðja mynd.

Telja að víkingaaldarminjar hafi fundist í Ólafsdal

Síðastliðinn laugardag hélt hópur af stað í gönguferð um Ólafsdal undir leiðsögn Birnu Lárusdóttur fornleifafræðings. Gangan var hluti af dagskrá Ólafsdalshátíðarinnar sem fram fór sama dag. Birna vinnur hjá Fornleifastofnun Íslands og var hún að eigin sögn svo heppin að fá að hafa yfirumsjón með fornleifaskráningu í dalnum í samstarfi við Minjavernd, sem hefur verið að taka fyrstu skrefin í uppbyggingu staðarins upp á síðkastið. Í botni dalsins sýndi hún hópnum það sem hún taldi að væri mögulega skáli frá víkingaöld og nálæg tóft sem minnti á jarðhús. Renndi það því stoðum undir þær getgátur að þarna væri um að ræða mannvirki frá landnámi en jarðhús má gjarnan finna nálægt slíkum skálum frá þeim tíma. Einnig báru 23 metra langveggir skálans þau einkenni sem hafa fundist á skálum þessa tíma en þeir eru kúptir svo skálinn er breiðari í miðjunni. Vonaðist Birna til að uppgröftur gæti farið fram þarna sem fyrst til frekari rannsókna og greiningar.

 

Þriðji staður hrakfallabálks

Vafalaust eru þetta mikil tíðindi fyrir staðinn en gestir í göngunni og Birna ræddu sín á milli hvort þarna væri mögulega skáli landnámsmannsins Ólafs Belgs. Í 42. kafla Landnámu segir:

„Óláfur belgur, er Ormur hinn mjóvi rak á brutt úr Óláfsvík, nam Belgsdal og bjó á Belgsstöðum, áður þeir Þjóðrekur ráku hann á brutt; síðan nam hann inn frá Grjótvallarmúla og bjó í Óláfsdal…“.

Gefur það til kynna að Ólafur hafi verið mikill hrakfallabálkur og að Ólafsdalur hafi verið þriðji staðurinn sem hann nam land, á eftir Ólafsvík á Snæfellsnesi og síðar í Belgsdal í Saurbæ. Dalurinn var þar með ekki fyrsti kostur landnámsmanns enda staðsetningin að mörgu leyti óvenjuleg, að sögn Birnu, fyrir skála þessa tíma. Mögulega sé hægt að rekja hana til þess að ábúendur hafi átt auðveldara með að verjast óvelkomnum aðkomumönnum á þeim stað sem skálinn er.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir