Tryggvi Hrafn í leik gegn KR í vikunni. Ljósm. gbh.

Tryggvi Hrafn frá ÍA til Halmstad

Tryggvi Hrafn Haraldsson sóknarmaður hjá knattspyrnufélagi ÍA hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið Halmstad og skrifaði Tryggvi nýverið undir tveggja og hálfs árs samning við félagið. Í tilkynningu sem ÍA sendi frá sér í kjölfar félagaskiptanna segir Magnús Guðmundsson formaður KFÍA að hlutirnir hafi gengið hratt fyrir sig í samningaviðræðum. „Halmstad hafði samband við félagið eftir KR leikinn í vikunni með ósk um að kaupa Tryggva Hrafn og eftir viðræður milli liðanna varð úr að Knattspyrnufélag ÍA samþykkti þeirra tilboð í Tryggva. Vissulega er mikill missir af Tryggva en við erum með sóknarmenn innan okkar raða sem munu fylla skarð hans.  Stjórn Knattspyrnufélags ÍA er ánægð fyrir hönd Tryggva sem á sannarlega framtíðina fyrir sér. Það ber vott um að stefna félagsins er að skila árangri að á rúmu einu ári hafa 5 leikmenn spilað með U21 landsliðinu, tveri með A landsliðinu og tveir leikmenn hafa verið seldir í atvinnumennsku,“ segir í tilkynningu frá Magnúsi.

Tryggvi er 21. árs og glímdi við alvarleg meiðsli nær allan sinn feril með öðrum flokk ÍA og spilaði lítið þau ár. Í fyrra gaf Gunnlaugur Jónsson honum svo stórt hlutverk í liði Skagamanna og nýtti Tryggvi það vel. Hann fór fljótlega að vekja mikla athygli og svo fór að Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari valdi Tryggvi í landsliðshóp fyrir vináttuleik gegn Mexíkó í janúar síðastliðnum þar sem Tryggvi lék sinn fyrsta A-landsleik. Tryggvi hefur leikið lykilhlutverk í liði Skagamanna í sumar og með félagaskipunum verður róður ÍA í Pepsideildinni enn þyngri en áður. Liðið situr enn í neðsta sæti, sex stigum frá því að komast úr fallsæti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir