Alvarlegur skortur á dagvistunarúrræðum á Akranesi

Í þessari viku kom í ljós að starfsemi tveggja dagmæðra á Akranesi verður ekki eins og til stóð. Þar með missa níu börn dagforeldrapláss. Önnur dagmæðranna ákvað með litlum fyrirvara að hverfa til annarra starfa en hins vegar fékkst ekki leyfi til að starfrækja dagvistun tveggja dagmæðra í sama fjölbýlishúsinu og því fækkaði um aðra dagmóðir af þeim sökum. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er nú unnið af kappi við að reyna að útvega dagvistun fyrir þessi níu börn. Vandi þessi bætist við skort á dagvistunarúrræðum sem fyrir var í bæjarfélaginu. Eins og ítarlega hefur komið fram í fréttum Skessuhorns hefur skóla- og frístundaráð Akraneskaupstaðar í sumar leitað lausna til að hægt verði að taka inn börn á leikskóla sem fædd eru fyrri hluta árs, þannig að þau fái pláss í síðasta lagi við tveggja ára aldur. Fjölmargir foreldrar eru í afar slæmri stöðu vegna þessa. Foreldrar sem haft hafa samband við Skessuhorn segja einfaldlega að um neyðarástand sé að ræða.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns eru meðal lausna sem nefndar hafa verið að taka á leigu Skátahúsið við Háholt og nýta það sem bráðabirgða leikskólarými. Ákvörðun hefur þó ekki verið tekin í þeim efnum. Á bæjarráðsfundi í lok júlí fól bæjarráð Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra að fullgera tillögur um að taka börn inn á leikskóla fyrr en tíðkast hefur fram til þessa. Var honum falið að vinna að slíkri tillögu fyrir 1. september næstkomandi.

„Það er fullur vilji til að finna leiðir til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Annars vegar stöndum við frammi fyrir því að leysa kröfu um þjónustuaukningu svo hægt verði að taka börn yngri inn til dagforeldra eða í leikskóla en tíðkast hefur fram til þessa. Til viðbótar er síðan kominn upp ákveðinn bráðavandi vegna fækkunar í hópi dagforeldra og eykur á vanda okkar,“ segir Valgerður Janusdóttir, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Akraneskaupstaðar í samtali við Skessuhorn.

Ekki náðist í Þórð Guðjónsson formann skóla- og frístundaráðs við vinnslu fréttarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir