Strandveiðisjómenn tóku sig saman og fluttu sjálfir út gám af fiski

Strandveiðimenn landsins eru orðnir þreyttir á lágu fiskverði sem verið hefur allt þetta veiðitímabil. Þeir voru því nokkrir strandveiðimennirnir í Grundarfirði sem tóku sig saman í síðustu viku og prófuðu að flytja aflann sjálfir út til sölu. Alls voru þetta níu bátar sem fluttu út 50 kör eða 15 tonn af fiski í gámi til Grimsby á Englandi. Runólfur Jóhann Kristjánsson er einn af þessum skipstjórum og sagðist hann vera sáttur við verðið þegar að blaðamaður heyrði í honum hljóðið í dag. „Þetta kom þokkalega vel út hjá okkur,“ sagði hann í stuttu spjalli en hann var þá staddur á flugvelli í London. „Við vorum að fá þetta 350 til 380 krónur fyrir aflann en meðalverðið var um 360 krónur. Það má þó taka það fram að það var óvenju gott verð fyrir smærri fisk í Grimsby en það er ekki alltaf svoleiðis,“ sagði hann jafnframt. Aflinn sem sendur var út veiddist dagana 1. til 3. ágúst og var búið að selja hann í morgun. Það var fyrirtækið Bókhald G.G. sem sá um útflutninginn og Atlantic Fresh ltd sem sá um söluna í Grimsby.

Runólfur með syni sína þá Hilmar og Kristján.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira