Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij æfðu báðir á sínum yngri árum körfubolta með ÍA og voru fyrir leik heiðraðir. Ljósm. jo

„Umgjörðin til fyrirmyndar,“ segir formaður KKÍ um landsleik á Akranesi

Laugardaginn 29. júlí var haldinn vináttulandsleikur A-landsliðs karla í körfubolta í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi þar sem Ísland tók á móti Belgíu. Þetta var í fimmta sinn sem spilaður var landsleikur á Vesturgötu. Leikurinn var sá síðasti sem liðið lék hér á landi áður en það keppir á Evrópumótinu í Finnlandi en mótið hefst í lok ágúst.

Leikurinn um helgina var vel sóttur og áætlað er að um 650 manns hafi verið á pöllunum að styðja liðið. Ísland var betri aðilinn allan leikinn og komst snemma í forystu sem liðið hélt svo allan leikinn. Liðið spilaði í heild sinni vel en frammistaða Hauks Helga Pálssonar stóðu upp úr. Haukur skoraði 23 stig, varði þrjú skot, tók eitt frákast, stal einum bolta og gaf eina stoðsendingu en hann klikkaði aðeins á tveimur skotum í öllum leiknum.

 

Mikil ánægja með umgjörðina

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, segir að leikurinn og umgjörðin hafi verið til fyrirmyndar. „Metnaður ÍA og Akraneskaupstaður var mikill og það er ánægja innan KKÍ hvernig staðið var að málum. Skagamenn fá líka hrós fyrir góða mætingu, sérstaklega í ljósi þess að leikurinn fór fram í júlí í einu besta veðri sumarsins. Skagamenn geta gengið mjög stoltir frá þessum leik og fá rúmlega tíu fyrir hann. Það skemmdi líka ekki fyrir hvað Ísland spilaði góðan leik,“ segir Hannes.

Ekki er hægt að spila keppnisleiki, hvort sem það er A-landslið eða yngri landslið, annars staðar en í Laugardalshöllinni svo ekki er hægt að búast við stórum leikjum á Akranesi í framtíðinni. „Við höfum verið dugleg að fara með vináttuleiki út á land vegna þess að ekki er hægt að spila keppnisleiki þar. Eftir helgina kemur vel til greina að spila fleiri vináttulandsleiki á Akranesi. Íþróttahúsið á Vesturgötu er frábært íþróttahús og hentar vel undir slíka viðburði,“ segir Hannes.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir