New York Times beinir kastljósinu að Húsafelli

Í grein sem birtist í hinu virta tímariti New York Times síðastliðinn föstudag er kastljósinu beint að Húsafelli sem næsta stóra áfangastað ferðamanna hér á landi. Greinarhöfundur rekur hina miklu fjölgun ferðamanna hingað til lands á undanförnum árum. Hann segir áhrif uppsveiflunnar að sjá alls staðar um landið. Flestir þekktustu áfangastaðirnir séu orðnir svo umsetnir að nauðsynlegt sé að ferðamenn beini sjónum sínum að nýjum stöðum, þangað sem Íslendingar fari sjálfir; nefnilega „villta vestrið“ eins og hann kallar Vesturlandið. Þar sé margt spennandi og áhugavert að sjá og þá sérstaklega Húsafell. „Ef Húsafell væri ekki til þá þyrfti að finna það upp,“ segir greinarhöfundur. Hann fer fögrum orðum um Húsafell, hótelið og það sem hægt er að skoða í næsta nágrenni. Nefnir hann sérstaklega Hraunfossa og Barnafoss, hellinn Víðgelmi og Deildartunguhver, nýjar gönguleiðir um nágrenni Húsafells og ísgöngin í Langjökli, sem hann segir stærsta aðdráttarafl svæðisins um þessar mundir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir