Telja of geyst ekið um götur Ólafsvíkur

Miklar verklegar framkvæmdir eru nú í gangi víða í Snæfellsbæ með tilheyrandi aukinni umferð stórra ökutækja. Smári Hauksson íbúi við Ennisbraut í Ólafsvík býr beint á móti sundlaug bæjarins og skóla. Hann vekur athygli á auknum akstri stórra vörubíla með farm sem nú fari gegnum bæinn á of miklum hraða að hans mati. „Hraði þessara bíla hefur verið að aukast mikið upp á síðkastið með tilheyrandi slysahættu,“ segir Smári sem hvetur til þess að umferðarhraði verði tekinn niður um þessar götur.

Áhyggjur íbúa í Ólafsvík vegna hraðaksturs bíla eru ekki nýjar af nálinni. Í frétt Skessuhorns árið 2007 sagði m.a.: „Íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja við Ólafsbraut í Ólafsvík eru orðnir þreyttir á hraðakstri einka- og flutningabíla, en talsverð umferð er um þessa aðalgötu bæjarins. Vegna þess hafa íbúar staðið fyrir undirskriftalista þar sem kemur fram að þeir vilja að bæjaryfirvöld beiti sér í málinu og umferðarhraða verði náð niður við Ólafsbraut t.d. með hraðahindrunum.“ Bæjaryfirvöld svöruðu íbúum í kjölfar þessara undirskriftalista og tóku undir áhyggjur þeirra. Óskað var eftir viðræðum við Vegagerðina um málið. Komið var til móts við þessar ábendingar meðal annars með því að setja þrengingar á Ennisbraut. Kristinn Jónasson bæjarstjóri segir í samtali við Skessuhorn að 50 km/klst hraði sé almennt leyfður þar sem þjóðvegur liggur í gegnum þéttbýli, nema lögreglusamþykkt viðkomandi sveitarfélags segi annað. „Við höfum á undanförnum árum verið í góðu samstarfi við Vegagerðina og fleiri aðila og sett t.d. þrengingar á götur en einnig hraðaskilti sem benda ökumönnum á ef of greitt er ekið miðað við aðstæður og umhverfi. Við höfum vissulega þann möguleika að færa umferð um götur niður fyrir 50 km/klst hraða en slíkt krefðist þess að gera yrði breytingar á lögreglusamþykkt,“ segir Kristinn sem jafnframt á ekki von á því að starfsmenn Vegagerðarinnar mæli með að umferðarhraði á þjóðvegi í gegnum þéttbýli verði lækkaður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir