Kristen McCarthy í leik með Snæfelli í janúar 2015. Ljósm. sá.

Kristen McCarthy snýr aftur í Hólminn

Körfuknattleikskonan Kristen McCarthy, sem varð Íslandsmeistari með Snæfelli veturinn 2014-2015, mun snúa aftur í Stykkishólm og leika með Snæfelli í Domino‘s deild kvenna næsta vetur. „Það er með miklu stolti sem körfuknattleiksdeild Snæfells tilkynnir samning Kristen, sem er til eins árs,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu félagsins. „Kristen er okkur Snæfellsfjölskyldunni vel kunnug en hún hefur haldið miklu og góðu sambandi við leikmenn, þjálfara og stjórnarfólk eftir að hún lék hérna og heimsótt liðið margoft,“ segir á síðunni.

Kristen leikur stöðu vængmanns og er mjög fjölhæfur leikmaður. Hún skoraði 28,2 stig að meðaltali í leik, reif niður 12,8 fráköst og gaf 3,2 stoðsendingar þegar Snæfell varð Íslandsmeistari veturinn 2014-2015. Hún var valin besti leikmaður seinni umferðar deildarinnar og besti leikmaður úrslitakeppninnar.

Undanfarin tvö ár hefur Kristen leikið sem atvinnumaður í Rúmeníu og Þýskalandai og skoraði í kringum 16 stig að meðaltali í leik í þeim deildum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir