Bílastæði við Hraunfossa. Ljósm. mm.

Landeigendur hyggjast hefja gjaldtöku á bílastæðum í óþökk allra hlutaðeigandi

Þrír fjárfestar sem eru landeigendur að Hraunsási II í Hálsasveit í Borgarfirði hafa ákveðið að hefja innheimtu aðstöðugjalds á bílastæðum við Hraunfossa frá og með klukkan 8:00 í fyrramálið 1. júlí. Innheimt verður 1000-2000 króna aðstöðugjald af smábílum, sem smám saman hækkar fyrir jepplinga, jeppa og hópferðabíla, upp í 6000 krónur fyrir rútur. Markmiðið með gjaldtökunni er að sögn landeigenda að bæta aðstöðu á bílastæðum. Eigendur jarðarhlutans Hrausáss II eru þrír þekktir fjárfestar sem víða hafa komið við í viðskiptalífinu. Þetta eru Lárus Blöndal hrl. og forseti ÍSÍ, Guðmundur A Birgisson sem kenndur er við Núpa í Ölfusi ásamt Aðalsteini Karlssyni. Þessir fjárfestar keyptu Hraunsás II fyrir nokkrum árum og liggur þessi hluti Hraunsássjarðarinnar að fossunum og nær m.a. yfir um 90% af núverandi bílastæðum. Fjárfestar þessir hafa hins vegar samkvæmt heimildum Skessuhorns ekki lagt neina fjármuni í uppbyggingu ferðaþjónustu við Hraunfossa. Landið við Hraunfossa er friðlýst og í umsjón Umhverfisstofnunar sem samkvæmt náttúruverndarlögum þarf að heimila ef taka á upp gjaldtöku. Bílastæðin eru í eigu og umsjón Vegagerðarinnar. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er fyrirhuguð gjaldtaka í mikilli andstöðu við forsvarsmenn Umhverfisstofnunar, Vegagerðar og sveitarfélagsins Borgarbyggðar, en auk þess þjónustuaðila á svæðinu sem nýverið lögðu í tugmilljóna fjárfestingu við uppbyggingu veitingastaðar.

 

„Í andstöðu við okkur“

„Að gefnu tilefni villjum við rekstraraðilar veitingastaðarins við Hraunfossa taka fram að við komum engan veginn að þessari gjaldtöku og erum andsnúin henni,“ segir í tilkynningu sem send var út í morgun í framhaldi fréttar sem birtist á Vísi.is. Snorri Jóhannesson, sem ásamt fjölskyldu sinni stendur að veitingastaðnum við Hraunfossa og hefur auk þess verið landvörður á svæðinu undanfarin ár, segir í samtali við Skessuhorn að fjölskylda hans hafi farið af stað í þessa fjárfestingu á síðasta ári í góðri trú um að vera þarna í skjóli Umhverfisstofnunar og ríkisins sem annast friðlýst svæði. „Okkar uppbygging hér er í góðu samstarfi við sveitarfélagið og stofnanir ríkisins,“ segir Snorri. „Fyrir okkur lítur þetta þannig út að landeigendur sem keyptu spildu úr landi Hraunsáss fyrir nokkrum árum ætla sér að hagnast á landinu. Ég óttast að ef af þessu verður sé um forsendubrest fyrir okkur að ræða,“ segir Snorri.

 

Styrk haldið í gíslingu

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutaði á þessu ári 22 milljónum króna til endurbóta og stækkunar á bílastæðum við Hraunfossa til að mæta vaxandi fjölda gesta sem þangað koma. Ekki hefur verið ráðist í framkvæmdir fyrir þann styrk og samkvæmt heimildum Skessuhorns eru peningarnir nú í gíslingu vegna andstöðu landeigenda að Hraunsási II sem ætla sjálfir stýra uppbyggingu bílastæðanna og gjaldtöku fyrir að leggja á þeim.

 

„Stýra umferð til að hámarka nýtingu“

Þrír fulltrúar landeigenda að Hraunsási II hittu rekstraraðila að veitingasölu á fundi nýverið. Í minnisblaði eftir þann fund skrifa þeir Kristján Elvar Guðlaugsson, Guðlaugur Magnússon og Heiðar Sigurðsson, fulltrúar landeigenda, að þeir ætli; „að starta því að taka þjónustugjald af bílum og ferðaþjónustu aðilum á svæðinu í samráði við landeigendur að Hraunsási 2. Við munum verða með landverði á staðnum sem eru merktir og munu aðstoða bílstjóra við að leggja svo við hámörkum fjöldann hverju sinni. Það sem við sjáum fyrir okkur [að] gera og hafa umsjón með er: Stýra umferð til að hámarka nýtingu á svæðinu, sjáum um að moka, sanda og salta á svæðinu, sjáum um allt rusl á svæðinu og komum upp ruslafötum á svæðið sem vantar núna. Við ætlum líka að laga bílsastæðin núna strax svo þetta verði bjóðandi bílum sérstaklega í innkeyrslunni. Einnig að hefja undirbúning að stækka bílastæðin en við teljum það ekki ráðlegt akkúrat núna í sumar, fara frekar í það í vetur þ.e. fyrir áramótin.“

 

Engin leyfi liggja fyrir

Þess ber að lokum að geta að samkvæmt náttúruverndarlögum þarf Umhverfisstofnun að heimila að gjaldtaka verði tekin upp inn á friðlýst svæði hér á landi. Bílastæðin við Hraunfossa eru auk þess í eigu Vegagerðarinnar. Samkvæmt heimildum Skessuhorns eru litlar líkur á því í augnablikinu að þessar stofnanir heimili gjaldtöku fyrir bílastæðaafnot við Hraunfossa í Borgarfirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira