Í júní 2007 var haldið fjölmennt mót á Akranesi sem hluti af Íslandsmótaröðinni í sjóstangveiði. Þá keppti 41 veiðimaður á tólf bátum. Myndin er frá því. Ljósm. bgk.

Fiskistofa synjar sjóstangveiðifélögum um mótshald

Fiskistofa hefur synjað Sjóstangveiðifélaginu Skipaskaga og sjö öðrum sjóstangveiðifélögum hér á landi veiðiheimild og þar með leyfi til að halda sjóstangveiðimót á þessu ári. Þessi rótgróni menningararfur okkar á landsvísu er nú í gíslingu opinberra embættismanna. Átta sjóstangaveiðifélög starfa á landinu. Félögin eru dreifð um landið og starfa í Reykjavík, Akranesi, Ólafsvík, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Neskaupsstað og Vestmannaeyjum. Sjóstangaveiðin er stunduð sem hrein áhugamannaíþrótt og á íþróttin sér langa sögu. Elstu félögin hafa haldið mót í yfir 50 ár en það yngsta hefur haldið mót í um 20 ár. Sjóstangaveiðifélögin standa svo fyrir mótaröð á hverju sumri og krýna Íslandsmeistara í sjóstöng. Þessi mót eru skemmtilegir viðburðir sem hafa fjárhagslega og félagslega jákvæð áhrif fyrir þau sveitarfélög þar sem mótin eru haldin hverju sinni.

Á vef Sjóstangveiðifélagsins Skipaskaga segir: „Í upphafi árs fékk Sjóskip, sem og önnur sjóstangaveiðifélög, synjun frá Fiskistofu varðandi veiðiheimild fyrir árið 2017 en það er í fyrsta skiptið sem slíkt gerist í tæplega 60 ára sögu á opnum sjóstangaveiðimótum við strendur landsins. Landssamband sjóstangaveiðifélaga hefur síðustu mánuði unnið að sáttarleið sem ekki hefur skilað árangri og því nauðsynlegt að færa málið á næsta stig sem er embættiskæruferli.“ Nú er því ljóst að Sjóskip mun ekki geta haldið aðalmót í sumar sem telur til Íslandsmeistara vegna afstöðu Fiskistofu um að hvika ekki frá ákvörðun um synjun veiðiheimildar. „Svarfrestur Fiskistofu til ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru okkar rann út í dag þannig að við ættum að fá innan fárra daga umsögn þeirra til skoðunar,“ segir í frétt á heimasíðu Sjóskip sem skrifuð var 21. júní sl.

„Í ljósi þess að þetta er komið svona langt á veg höfum við ákveðið að birta innihald kærunnar svo að félagsmenn og aðrir geti skilið hvers eðlis málið er. Hér er fyrst og fremst verið að berjast fyrir réttlæti meðalhófsreglunnar en sem dæmi er okkur ekki kunnugt um að önnur félagssamtök séu skyldug til að borga fyrir endurskoðanda og afhenda afrit af öllum kvittunum til að fá umsókn viðurkennda.“ Sjá má ítarlega reifun málsins á heimasíðunni http://sjoskip.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Lóan er komin, þessi boðberi sumars og hlýnandi veðurs, mætti á Vesturlandið í liðinni viku. Myndina tók Sólveig Jóna Jóhannesdóttir... Lesa meira