Gróður rýr í sjónum vestan við landið

Árlegum vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar lauk 31. maí síðastliðinn. Farið var á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Leiðangurinn var liður í langtímavöktun á ástandi sjávar, næringarefnum, gróðri og átu á hafsvæðinu við Ísland og þannig verið að kanna ástand þessa fyrsta hlekkjar í fæðukeðju sjávar. Í samantekt um niðurstöðu leiðangursins segir að hiti og selta í efri sjávarlögum í hlýsjónum sunnan við landið hafi verið nokkru lægri en verið hefur að jafnaði síðustu tvo áratugi. Hiti og selta efri laga voru yfir meðallagi úti fyrir Norðurlandi. Yfirborðslög fyrir norðaustan og austan land voru vel yfir meðallagi í hita og seltu. Vorkoma gróðurs var víðast vel á veg komin, nema djúpt út af Vesturlandi. „Vorblómi svifþörunga hafði átt sér stað í Faxaflóa, en gróður var annars rýr vestan lands og styrkur næringarefna líkt og að vetrarlagi, ef grunnslóð Faxaflóa og Vestfjarða er undanskilin,“ segir í samantektinni. Áberandi samfelldur gróðurflekkur náði nánast yfir allt landgrunnið út af Norðuraustur- og Austurlandi og vestur með allri Suðurströndinni. Átumagn var nálægt langtímameðaltali.

Líkar þetta

Fleiri fréttir