Stoppað þar sem hentar þrátt fyrir hættuna sem því fylgir

Til að auka hættu á slysum í vaxandi umferð um þjóðvegi landsins er til dæmis hægt að gera eins og bílstjóri þessa hópferðabíls sem var á leið sinni um Stafholtstungur í Borgarfirði í dag. Nokkur hross frá Bakkakoti eru þarna á beit utan við veggirðinguna. Rútan er stöðvuð við óbrotna línu og stuttu framar eru vegamót þar sem ekið er upp í Þverárhlíð. Hópur fólks úr rútunni var svo úti í vegkanti að skoða hestana. Vegfarandi á leið um Borgarfjörð sendi Skessuhorni þessa mynd og hvatti til að vakið yrði máls á háttarlaginu og sagði það fullkominn óþarfa. Nú væri meira að segja hægt að koma við á bæjum sem bjóða upp á að ferðaskrifstofur og ferðafólk geti hitt hross í návígi, tekið af þeim myndir og jafnvel farið á bak. Einn slíkur staður var opnaður í vor, er nokkru ofar í héraðinu, á Sturlu-Reykjum í Reykholtsdal. Ástæða er til að hvetja ferðaskrifstofur til að nýta slíka þjónustu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir