Svipmynd frá Laugargerðisskóla. Ljósm. úr safni.

Hreppsnefnd fól SSV að hefja greiningarvinnu fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp

Á fundi hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps síðastliðinn fimmtudag var meðal annars rætt um framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið með tilliti til hugsanlegrar sameiningar við önnur sveitarfélög. Í fundargerð frá hreppsnefndarfundi segir að Eggert Kjartansson oddviti hafi flutt inngang og talað fyrir að skoða þyrfti ýmsa kosti áður en farið yrði að ræða eina leið varðandi sameiningarmál. Málið var rætt fram og aftur og sýndist sitt hverjum, segir í fundargerðinni. Atkvæði voru greidd um erindi Gísla Guðmundssonar og Valgarðs Halldórssonar íbúa í hreppnum þess efnis að Eyja- og Miklaholtshreppur taki þátt í greiningarvinnu sem nú er í gangi vegna sameiningar sveitarfélaganna Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar og Grundarfjarðarbæjar. Tillaga þeirra var studd með undirskriftum um 2/3 hluta íbúa sem vilja að sveitarfélagið tæki þátt í greiningarvinnunni. Tillaga Gísla og Valgarðs var felld í hreppsnefnd með þremur atkvæðum gegn tveimur. Þess í stað samþykkti meirihluti hreppsnefndar að fá Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi til að hefja greiningarvinnu um hvar snertifletir og tengingar eru einkum við önnur sveitarfélög og taka saman í framhaldi hvaða kostir eru í stöðinni fyrir hreppinn.

 

Hefði varpað skýrari ljósi á málið

Í bókun hreppsnefndarfólksins Halldórs Jónssonar og Hörpu Jónsdóttur, sem vildu að farið yrði í greininarvinnu um kosti sameiningar, segir: „Undirritaðir hreppsnefndarmenn harma að ekki hefur verið tekið tillit til vilja þeirra íbúa sveitarfélagsins sem vilja að sveitarstjórn taki þátt í þeirri greiningarvinnu sem nú er að hefjast milli Helgafellssveitar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar um sameiningu/samstarf sveitarfélaganna. Greiningarvinnu sem hefði varpað skýrara ljósi á kosti og galla sameiningar fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp. Íbúar sveitarfélagsins hefðu alltaf haft síðasta orðið um þá framvindu.“

 

Hvar liggja mestir snertifletir?

Eggert Kjartansson oddviti bókaði og flutti um leið svohljóðandi tillögu: „Þegar á að fara að skoða framtíðarsýn vegna samfélaga er mjög mikilvægt að fara vel yfir alla hluti enda skiptar skoðanir á þessum málum og afar mikilvægt að vanda vel til verka og hleypa öllum sjónarmiðum að með lýðræðislegum hætti. Ljóst er að Eyja- og Miklaholtshreppur er í þeirri sérstöðu að við höfum 4 möguleika í stöðunni. Vera sjálfstætt sveitarfélag áfram, fara inn í samtalið við Grundarfjörð, Stykkishólm og Helgafellssveit, [eða] skoða hlutina með Snæfellsbæ eða Borgarbyggð. Mikilvægt er að greina og skoða möguleikana sem eru í stöðunni, hvar liggja tengingar og samlegðaráhrif við nágrannana okkar og hvar við viljum helst vera með sem mest samstarf í framtíðinni. Oddviti leggur til að SSV verði fengið til að gera samantekt á því hvar snertifletir og tengingar eru við önnur sveitarfélög og taka saman í framhaldi hvaða kostir eru í stöðinni fyrir okkur. Í framhald af því færi fram samtal við íbúa.“ Þessi tillaga oddvita var samþykkt með þremur atkvæðum, en tveir sátu hjá.

Líkar þetta

Fleiri fréttir