Nýja ferjan er nú á leið frá Færeyjum til Íslands.

Jómfrúarsiglingin á fimmtudaginn

Nú hefur það verið staðfest að ferjan á milli Reykjavíkur og Akraness mun sigla jómfrúarsiglingu sína frá Reykjavík til Akraness næstkomandi fimmtudag klukkan 17. Ferjan er núna í Færeyjum en búist er við því að hún leggi af stað til landsins síðar í dag. „Siglingin frá Bergen til Færeyja gekk ljómandi vel en það hefur verið frekar vont í sjóinn í kringum Færeyjar að undanförnu en við búumst við því að ferjan fari af stað á næstu klukkutímum. Hún verður líklega merkt á miðvikudaginn og fer svo jómfrúarsiglinguna frá Reykjavík til Akraness á fimmtudaginn,“ segir Gunnlaugur Grettisson hjá Sæferðum í samtali við Skessuhorn.

Við komuna til Akraneshafnar á fimmtudaginn segir Gunnlaugur að búast megi við skemmtun. „Það verður smá húllumhæ og bæjarbúum gefst tækifæri til þess að fara í siglingu með ferjunni. Við ætlum svo að hafa einhverjar siglingar um helgina og síðan að hefja reglulegar flóasiglingar á mánudaginn. Ferjan er flott og okkur hlakkar mikið til að byrja starfsemi,“ segir Gunnlaugur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir